146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:51]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hann er sammála mér og við erum sammála um að menntun er lykilatriði fyrir samfélagsbreytingar. Menntun er lykilatriði fyrir sjálfstæði þessarar þjóðar. Við erum hér með Jón Sigurðsson sem horfir yfir okkur og vakir yfir okkur. Það er ekki tilviljun að Háskóli Íslands var stofnaður á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar. Það er af því að hann skrifaði um það í sínum ritum að það væru ákveðnir þættir sem væru lífsnauðsynlegir fyrir sjálfstæði þjóðarinnar. Einn af þeim væri menntun.

Þetta er umhugsunarefni fyrir hv. þingmenn meiri hlutans sem horfa hér upp á Air Iceland Connect og Amazing Home Show og hvað það heitir, að við erum ekki einu sinni að standa undir því að taka inn nemendur í máltækni í háskólanum því að ekki er til peningur. En við ætlum ekkert að hafa áhyggjur af því, bara sitja hér og horfa á tungumálið okkar fljóta fram hjá okkur og ekki gera neitt. Því að það er það sem hv. þingmenn meiri hlutans eru að gera ef þeir ætla að samþykkja þessa áætlun. Þeir ætla að sitja hjá og aðhafast ekkert. Ég spái því að dómur sögunnar verði ekki of vinsamlegur því fólki sem ætlar ekki að bregðast við þeirri stöðu sem íslensk tunga er í nákvæmlega núna.

Hvað varðar framhaldsskólana erum við þegar farin að sjá — við erum ekki búin að sjá neinar greiningar, að sjálfsögðu ekki, því að það eru engar greiningar birtar með þessari áætlun, það er nú málið í þessu öllu saman, hún er bara sett fram og síðan fáum við harðorða umsögn frá óháðum fagaðilum sem þó eru skipaðir af meiri hlutanum að hluta, og þeir segja allir: Hér vantar allar greiningar, þetta er algerlega ógagnsætt og ekki í samræmi við grunngildi laga um opinber fjármál; og allir láta eins og þetta sé bara svona lítið lærdómsferli. En lærdómsferlið er það að þessi áætlun fær falleinkunn. Við erum hins vegar byrjuð að sjá afleiðingarnar í þeim áformum hæstv. menntamálaráðherra að byrja að sameina skóla án þess að nein greining liggi fyrir um það. Það hefur komið fram á fundum hv. allsherjar- og menntamálanefndar að sú ráðstöfun hefur ekki verið greind til hlítar.