146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:28]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir áhugaverða ræðu og skil mjög vel að hann hafi lagt þó nokkra áherslu í ræðu sinni á efnahagslegu forsendurnar því að hann sat í þeirri nefnd. Hv. þingmaður kom eðlilega, enda tengist það, inn á þau gagnrýniverðu vinnubrögð, þ.e. á framsetningu þessarar fjármálaáætlunar. Það má kannski segja að umræðan á Alþingi hafi annars vegar verið um það hvernig áætlunin er sett fram og gagnrýni á það. Ég tek undir með þeim sem hafa talað um að þessi vinnubrögð séu langt frá því að vera ásættanleg. Hins vegar höfum við verið að ræða hið pólitíska inntak í áætluninni, en það verður auðvitað svolítið erfitt þegar framsetningin er jafn slæm og raun ber vitni og jafn erfitt er að fá fram tölur og upplýsingar, því að þær voru ekki birtar með hinni upphaflegu þingsályktunartillögu heldur var það eitthvað sem við þurftum að kalla sérstaklega eftir.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, vegna þess að flokkur hans hefur verið einn af þeim sem hafa talað fyrir betri og opnari vinnubrögðum á Alþingi, hver sýn hans sé á það, vegna þess að nú hefur traust á Alþingi ekki verið mikið og traust á stofnanir hefur ekki verið mikið, hvort hv. þingmaður sé sammála mér í því. Eða þá annars að fá skoðun hans á því hvaða áhrif það hafi að svona léleg, ætla ég að leyfa mér að segja, áætlun sé sett fram. Hvaða áhrif hefur það á (Forseti hringir.) þjóðfélagsumræðuna, ef við látum pólitíkina hreinlega liggja á milli hluta í þessu fyrsta andsvari, heldur snúum okkur að forminu?