146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:35]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Til að klára aðeins fyrri fyrirspurnina. Það er líka mikilvægt þegar við tölum um fimm ára áætlun um fjármál ríkisins og efnahag þjóðarinnar séum við með góða umræðu í samfélaginu. Vegna þess að þetta er fimm ára áætlun. Þetta er ekki eitthvert grín. Þetta skiptir ótrúlega miklu máli. Samfélagslega umræðan um þessa fjármálaáætlun hefur verið afskaplega lítil. Afskaplega fáir hafa áhuga á þessu vegna þess að þetta er flókið og framsetningin er léleg, fyrir utan það held ég að flestir átti sig ekki á því hvað fjármálastefna og fjármálaáætlun er og af hverju þetta er frábrugðið fjárlögum. Við verðum að geta kommúnikerað, afsakið slettuna, herra forseti, eða komið þessum skilaboðum áleiðis út í samfélagið.

Varðandi þennan niðurskurð. Nú hafa stjórnarliðar talað rosalega mikið um hvað þetta er mikil viðbót af peningum sem er að koma inn. Sú viðbót er alfarið til komin vegna þess að gengið er út frá því að hagvöxtur haldi áfram og verði alveg á himinflugi til framtíðar. Staðreyndin er sú að við höfum akkúrat engar forsendur til þess að trúa því, aðrar en þær að menn séu kannski heldur vonglaðir í fjármálaráðuneytinu. Það fær mig til þess að halda að við verðum að líta á þetta einmitt út frá því hvaða hlutfall af vergri landsframleiðslu þetta er. Þarna erum við, eins og hv. þingmaður nefndi, að tala um lækkun yfir tímabilið, sem er mikil afturför og er í raun afturför til þess tíma áður en við vorum með gott vegakerfi að því marki sem það er gott og gott heilbrigðiskerfi að því marki sem það er gott og gott menntakerfi að því marki sem það er gott. Við erum að hverfa aftur (Forseti hringir.) til þess tíma þegar við vorum að skríða úr síðustu torfkofunum.