146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:37]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar hér, í annarri ræðu minni í þessu máli, að fara aðeins betur ofan í fjármálaáætlunina þó að ég ætli kannski ekki að festa mig í ákveðnum tölum. Ég ætla meira að velta fyrir mér stóru línunum í þessu því að ég verð að segja alveg eins og er að ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég sá ríkisfjármálaáætlun. Svo hefði kannski ekki átt að vera miðað við að hafa hlustað á hv. stjórnarliða tala eftir kosningar. En þó, ég varð engu að síður fyrir vonbrigðum.

Aðeins hvað varðar vinnulagið. Mig langar að grípa niður í stjórnarsáttmálann, stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Þar er vissulega talað um ráðdeild í opinberum fjármálum. Fyrr má nú aldeilis fyrrvera þegar kemur að þessari fjármálaáætlun. En svo segir:

„Nauðsynlegt er að … temja sér öguð og gagnsæ vinnubrögð í opinberri stefnumótun og stjórnsýslu.“

Og aðeins neðar:

„Við lagasetningu þarf að gæta þess að fulltrúar ólíkra sjónarmiða hafi rúman tíma til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.“

Og aftur, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun í öllum störfum sínum hafa í heiðri góða stjórnarhætti og gagnsæja stjórnsýslu.“

Hvernig hefur ríkisstjórninni tekist að uppfylla þessi loforð sín sem hv. stjórnarflokkar gáfu? Hvað er orðið langt síðan? Fjórir mánuðir? En sem lítill aðdáandi línulegs tíma verð ég að nefna þann tíma með ákveðnum fyrirvara. Í það minnsta var þetta í janúar.

Á þessu fyrsta stóra prófi sínu í þessum loforðum, þegar að þeim kemur, er ósköp einfaldlega hægt að segja að ríkisstjórnin hafi kolfallið. Við fengum þetta mál hér inn til umræðu. Stjórnarandstaðan þurfti að kría út allt sem nálgast það að vera fagleg umfjöllun um málið; það varð til vegna þess að stjórnarandstaðan krafðist þess. Upphaflegar hugmyndir stjórnarliða um hvernig ætti að fara með þetta plagg gengu ekki út á þá málsmeðferð sem síðan varð að veruleika. Því miður hafði stjórnarandstaðan ekki meiri styrk til að krefjast meiri og betri og agaðri vinnubragða. Auðvitað væri best ef stjórnarandstaðan hefði einfaldlega meiri hluta og þyrfti ekki að vera að fjalla um þetta mál. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) En þetta er sent inn í fagnefndir og fagnefndir fá tíma til að kalla til sín gesti og vinna umsögn en á hverju einasta stigi af þeim sem ég hef talið upp hér þurfti þref. Það þurfti að kúska stjórnarliða til þess að opna augun fyrir því að kannski væri sanngjarnt og réttlátt að sýna öguð vinnubrögð og gagnsæi eins og mikið var básúnað í stjórnarsáttmálanum.

Við í hv. umhverfis- og samgöngunefnd gerðum eins og ég hygg að hafi verið gert í flestöllum öðrum nefndum, ef ekki öllum, að biðja um þýðingu á þessu plaggi, á því merka og mikilvæga sviði sem er aðskilnaður reksturs og fjárfestingar. Við spurðum hvernig hægt væri að meta ríkisfjármál næstu fimm ára án þess að vita nákvæmlega hvað ætti að fara í rekstur annars vegar og í fjárfestingar hins vegar. Það hafðist að einhverju leyti frá hæstv. samgönguráðuneyti, ekki þó á fullnægjandi hátt að mínu mati. Ekkert slíkt fengum við frá umhverfisráðuneyti. Þetta hef ég fregnað innan úr öðrum nefndum: Það er happa og glappa hvernig ráðuneytin brugðust við þessari frómu og sjálfsögðu ósk sem ætti að vera grundvöllur þess að stjórnarliðar gætu sýnt sig kinnroðalausir í framan með þetta plagg. Því að annars er þetta bara rusl, bara einhver hrærigrautur talna sem hægt er að nota í pólitískum tilgangi, til að ljúga því að þjóðinni að til standi að auka fjármuni til hinna ýmsu málaflokka og tala eins og það sé allt í reksturinn.

Maður á einfaldlega að hafa manndóm til að standa við stefnu sína. Maður á að segja satt og tala skýrt. Maður á ekki að nýta hvern krók og kima til að koma sér undan því sem raunverulega er verið að leggja fram.

Þegar plaggið er komið fram fara einhverjir stjórnarliðar að hlaupast undan merkjum. Allt í einu er róttækasta tillaga plaggsins — kannski fyrir utan útgjaldaþakið sem hægt væri að halda heila ræðu um og hefur verið gert — þ.e. að hækka vask á ferðaþjónustu, einhvers konar umræðugrundvöllur sem sértillaga þarf að koma fram um og leggja þarf sér fram í lögum og þarf ekkert að ræða í tengslum við þessa fjármálaáætlun. Bíddu, byggir ekki öll tekjuhlið og tekjuaukning þessa frumvarps á þessum tillögum? Meiri hluti hv. fjárlaganefndar skilar bara af sér meðmælum um þetta frumvarp, sem er þá með öllum heimsins fyrirvörum um hvað sé að því, og mælist til þess að það sé skoðað hvort ekki sé rétt að hækka vaskinn um áramót. Bíddu, samkvæmt tillögunni á hækkunin að skila 9 milljörðum á næsta ári.

Það stendur eiginlega ekki steinn yfir steini í þessu. Og það er kannski ekkert skrýtið. Bæði þurftu menn að drífa sig eins og þeir mögulega gátu við að koma þessari tillögu út til að halda í heiðri alla formfestu dagatalsins, sem reyndist hæstv. fjármálaráðherra mikilvægara en að vinna innihaldið nægilega vel. Og svo er það hitt að hér er verið að fegra hlutina. Þess vegna er þessu plaggi hent út og túlkað út og suður eftir því á hvaða stjórnarliða hlýtt er; annaðhvort er þetta stærsta og mikilvægasta mál ríkisstjórnarinnar, sem mun leggja línurnar fyrir næstu fimm ár, eða bara umræðugrundvöllur sem má endurskoða einu sinni á ári.

Blekkingaleikur er orð sem kemur upp í hugann þegar þetta plagg er skoðað. Því hver er raunverulega pólitíkin í þessu? Það er það sem ég vil helst ræða. Við getum rætt tölur fram og til baka og í þessum sal er fólk sem er mun betur til þess fallið en ég. Ég vil ræða pólitíkina á bak við þetta. Það hefur komið fram í þessum ræðustól að samneyslan sem hluti af vergri landsframleiðslu eigi að lækka. Er það af því að samneyslan var farin að fitna of mikið? Var það orðið allt of mikið sem við vorum farin að eyða í samneysluna, eða hvað? Loksins komst á það stórkostlega tækifæri að skera nú aðeins niður þar, láta hana ekki vaxa um of? Nei, það var ekki út af því. Er það í takti við það sem allir stjórnarflokkarnir ýmist lofuðu eða gáfu ádrátt um að yrði skoðað? Að auka til dæmis hlutfall af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála í ljósi undirskriftasöfnunar? Er það út af því? Nei, það er einfaldlega af því að nú er komið til valda fólk sem trúir því að samneyslan eigi ekki að vera eins stór hluti af samfélaginu og hún er í dag, hvað þá að hún eigi að vaxa. Sem er miður, eftir niðurskurð síðustu ára þar sem allir viðurkenna að mikil og gríðarleg þörf sé til innviðauppbyggingar.

Raunveruleg staða er einhvern veginn falin. Það er svo djúpt á tölum að oft þarf margar beiðnir til ráðuneyta til að fá skýringu á þeim; og það er happa glappa hvort þær fást á endanum. Ég hlustaði á hverja ræðuna á fætur annarri í þessum umræðum. Hver hv. þingmaður á fætur öðrum skilur ekki alveg raunverulegu stöðuna. Ekki af því að þá skorti vit heldur af því að staðan er svo óskýr. Ég hlustaði á fulltrúa hverrar stofnunarinnar á fætur annarri koma inn á fund hv. umhverfis- og samgöngunefndar sem vissu ekkert hvernig næstu ár yrðu. Hér er hægra-plagg sem gengur út á að minnka hlut (Forseti hringir.) samneyslunnar í ríkisrekstrinum í okkar kerfi. Fólk á að hafa manndóm í sér til að koma og segja það, standa með þeirri hugmyndafræði, eins ömurleg og hún er.