146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:56]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég er algerlega sammála því. Mér finnst það ábyrgðarhluti að leggja fram jafn óljóst plagg og raun ber vitni hér. Ég hef heyrt í gestum hv. umhverfis- og samgöngunefndar, sem ég sit í, og fleirum. Það setur fólk í ákveðið uppnám að sjá ekki hvað er verið að gera. Það veit enginn hvernig næstu ár verða. Það að leggja fram plagg sem eykur á óvissuna, og eykur ekki bara á hana heldur býr hana beinlínis til, er mikill ábyrgðarhluti. Og ég held að hv. ríkisstjórn væri nær að iðka þau samræðustjórnmál sem flokkarnir sem að henni standa boðuðu fyrir kosningar. Við hlustuðum á hæstv. velferðarráðherra í fyrirspurnum í dag taka skoðanakönnun um vilja Íslendinga til opinbers heilbrigðiskerfis á þann veg að það væri stefna ríkisstjórnarinnar að allar grunnstoðir heilbrigðiskerfanna yrðu í opinberri eigu. Það er einfaldlega ekki það sem þessi fjármálaáætlun boðar.