146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:57]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég er að hugsa þegar maður situr yfir þessu: Við fengum málið inn í fjárlaganefnd fyrir um sjö vikum eða svo. Nú erum við á þriðja degi í umræðum, er það ekki? Það er eins og þetta sé allt tómur þvættingur sem verið er að vinna. Við höfum unnið í ágætu samráði við minni hlutann í fjárlaganefnd um það bætta verklag sem er verið að reyna að fara af stað með. Svo koma ábendingar um að búið sé að sundurliða rekstur og stofnkostnað og aðra þætti, en það er tafla þarna sem tekur á því að stærstu leyti; helstu framkvæmdir í fjármálaáætluninni, stofnkostnaður.

Það eru ýmsar viðbætur og verið að bæta hluti. Er þetta allt svo neikvætt eins og menn vilja vera láta? Það hefur margt verið upplýst í ferlinu og það er töluvert efni til. Auðvitað má bæta margt. Þetta verklag var fyrst tekið upp í fyrra. Hv. þingmaður (Forseti hringir.) minntist, held ég, á það í fyrri ræðu sinni að Svíar hefðu tekið níu ár í þetta og Austurríkismenn eitthvað svipað.