146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:04]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einfalda svarið er að gera mig að iðnaðarráðherra og ég skal leysa þessi mál. Ég er vissulega ættaður af landsbyggðinni. Ég segist alltaf vera ættaður af miðhálendinu ef ég er spurður, því að ég á tengingar næstum því allan hringinn í kringum landið og þykir sumum kollegum mínum nóg um. En það er alveg rétt að raflínumál hafa verið í ákveðnum ólestri mjög lengi. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér umræður sem ég átti við hæstv. núverandi iðnaðarráðherra um þessi mál hér fyrir allnokkru þar sem ég spurði hæstv. ráðherra akkúrat út í það hver væri stefna hæstv. ráðherra í þessum málum. Það er augljóst að gera þarf gangskör að því að laga til þar. Ég held að ein mínúta dugi illa til að fara ofan í það. En ég hef kallað eftir því að hæstv. ráðherra leggi fram stefnu stjórnvalda í raflínumálum, eins og reyndar ber að gera samkvæmt raforkulögum.