146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:06]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég játa að ég átta mig ekki alveg á því til hvers hv. þingmaður er að vísa þegar hann talar um ferðamannaþjónustu, en almennt um þessi mál ætla ég þó að leyfa mér að nota sama, að mörgu leyti hið hvimleiða svar og ég notaði við fyrri spurningu hv. þingmanns. Það er nefnilega staðreynd að í málefnum ferðaþjónustunnar hefur ríkt algert stefnuleysi. Það er að mörgu leyti stórhættulegt að mínu mati. Þar hefur einmitt samkrull einkafjármagns og jafnvel opinbers fjármagns með verið einhvern veginn eftir hendinni. Það hefur algerlega skort á hvernig stjórnvöld vilji sjá uppbyggingunni varið. Menn hafa með annarri hendinni verið að taka þátt í átökum úti um allan heim til að fjölga ferðamönnum og dreifa þeim jafnvel yfir landið og árstímann, en nú ætla menn greinilega með hinni hendinni (Forseti hringir.) að fækka ferðamönnum án þess að segja nokkuð um hvaða áhrif það eigi að hafa á þá stöðu. Þannig að stefnumótun er númer eitt, tvö og þrjú þegar að þessu kemur.