146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var ágætissvar við spurningum mínum. Ég velti líka fyrir mér þætti sveitarfélaganna í fjármálaáætlun. Rekstur sveitarfélaganna orðinn verulega umfangsmikill hluti af ríkisfjármálum og hin nýju lög um opinber fjármál gera mun meiri kröfur um ákveðið samræmi á milli ríkis og sveitarfélaga. Því veltir maður aðeins fyrir sér, og væri áhugavert að heyra skoðun hv. þingmanns á því, hvort við séum ekki komin á þann stað ef við ætlum að fara að lögum um opinber fjármál að fullu varðandi aga og stöðugleika og öll þau merkilegu markmið sem við viljum ná. Ég velti einnig fyrir mér fjárhagsáætlunum sveitarfélaganna sem og samgönguáætlun. Við höfum nefnt löggæsluáætlun í umræðunni og fleiri áætlanir sem samþykktar eru og stjórnvöld fylgja, eða segjast ætla að fylgja, hvort ekki sé rétt að nýta þessar áætlanir betur þegar ríkisfjármálaáætlun er (Forseti hringir.) skrifuð. Og einnig að tímamörk séu samræmd, þ.e. að það sé ekki ein áætlun með þriggja ára tímabil og önnur með fimm o.s.frv., að við séum að vinna innan sama ramma með allar þær áætlanir sem ríkisfjármálin þurfa að taka tillit til.