146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:30]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Nú eigum við hv. þingmaður sæti í velferðarnefnd Alþingis þar sem fæðingarorlofsmálin hafa til dæmis verið til umræðu. Ég fagna því að hækka eigi hámarksgreiðslurnar í fæðingarorlofi en það veldur mér miklum vonbrigðum að ekki sé gólf, eins og hv. þingmaður hefur talað fyrir, varðandi greiðslur í fæðingarorlofi. Það eru einnig vonbrigði að ekki er gert ráð fyrir lengingu fæðingarorlofs. Ég spyr hvort hann sjái þess einhver merki í ríkisfjármálaáætluninni og hvort hann sjái einhver markmið um að koma til móts við foreldra barna sem þurfa að sækja fæðingarþjónustu fjarri heimabyggð varðandi lengingu á þeim ákvæðum.

Mig langar jafnframt að spyrja hv. þingmann, því að þingflokkur hans, Vinstri grænir, hefur sett fram margar breytingartillögur, hvort þau hafi kostnaðargreint þessa þætti, t.d. hvað gólf í fæðingarorlofinu gæti kostað eða það að lengja fæðingarorlofið og koma jafnvel til móts (Forseti hringir.) við foreldra sem þurfa að sækja þjónustu fjarri heimabyggð.