146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:05]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargott svar. Eins og hv. þingmaður benti á er það í raun og veru sorglegt að ekki sé fjárhagslegt svigrúm til að fylgja þessari skuldbindingu okkar á alþjóðavettvangi eftir þegar kemur að mannréttindum, og ég held að hv. þingmaður hljóti að vera sammála mér um að þetta snýst líka um pólitískan vilja og áherslur.

Hv. þingmanni varð tíðrætt um óvissu um efnahagslegar forsendur og þær greiningar sem liggja til grundvallar fjármálaáætluninni. Þar tekur í sama streng fjármálaráð sjálft og bendir einmitt á þetta í umsögn sinni og gerir þar miklar athugasemdir við þá aðferðafræði sem beitt er við gerð fjármálaáætlunar og bendir til að mynda á að þær hagspár sem stuðst hafi verið við á undanförnum árum hafi ítrekað ekki staðist og þjóðhagsspáin hafi tekið umtalsverðum breytingum um tíma og það sé enga greiningu hins vegar að finna.

Einnig benti hv. þingmaður í ræðu sinni á skort á gagnsæi varðandi allar upplýsingar sem hér vantar hreinlega í fjármálaáætluninni. Og hvorki þingmenn né fastanefndir (Forseti hringir.) hafa fengið aðgang að upplýsingum eins og hv. þingmaður bendir á í umsögn sinni. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér hvernig hægt sé að bæta úr þessu ógagnsæi þegar kemur að því að vinna næstu fjármálaáætlun?