146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að veita hv. þingmanni andsvar við ræðu hennar en ekki spyrja hana með beinum hætti eins og oftast er gert í andsvörum sem hér eru flutt.

Fyrst vil ég segja að mér finnast það þung orð að segja að hér séu framin lögbrot. Ég get ekki tekið undir það og ætla að leyfa mér að hafna því. Hins vegar get ég í öllum aðalatriðum staðfest að á þeim fundi sem hv. þingmaður vitnaði til og var haldinn hér fyrr í dag þar sem við reyndum að greiða úr því hvernig við gætum aflað þeirra upplýsinga sem þingmenn Pírata hafa beðið eftir, var ekki mögulegt að svara þeim spurningum með þeim hætti sem beðið var um.

Hins vegar varpa þær spurningar sem hv. þingmenn lögðu fram ljósi á þann grunn sem við þurfum að bæta og treysta til þess að við getum við næstu umferð við næstu fjármálaáætlun fengið þau tæki og tól sem þarna er verið að kalla eftir. Ég tek algjörlega undir það. Það kom mjög skýrt fram. Við funduðum m.a. með starfsmanni fjármálaráðuneytis og nefndariturum okkar fyrr í dag og erum öll meðvituð um hversu langt við eigum í land með að fullkomna, ef hægt er að tala um það, einhvern tímann þetta verklag.

Sagt var, m.a. sérfræðingar sem veittu Íslendingum ráðgjöf í þessum efnum, þegar við vorum að setja þessa löggjöf í þinginu á síðasta kjörtímabili að það væri reynsla annarra þjóða að það myndi mögulega taka fimm til tíu ár að slípa þetta til fyrir íslenskar aðstæður þannig að áætlunin myndi halda gildi sínu.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði það mjög skýrt og greinilega á fundi með fjárlaganefnd fyrir nokkrum dögum síðan að allar þær ábendingar sem væru komnar fram núna yrðu greindar og við myndum læra af þeim. Það er einlægur ásetningur minn sem formaður fjárlaganefndar að fylgja því eftir. (Forseti hringir.) Þegar þessu rennsli, ef svo má segja, virðulegi forseti, er lokið varðandi fjármálaáætlun förum við (Forseti hringir.) yfir þá reynslu sem við höfum aflað okkur og þá agnúa sem við höfum rekið tærnar í og reynum að sníða þá af.