146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

um fundarstjórn.

[10:40]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ábyrgðin er alfarið hjá hæstv. ráðherra Þorsteini Víglundssyni fyrir að skila málinu of seint inn og fyrir að skila of mörgum málum of seint. Hafa ber að í huga að þessi ráðherra lagði ofurkapp á jafnlaunavottun, sem er í raun og veru ekki tilbúið heldur því að það vantar greiðslumat á áhrifum þess. Samt mun það fara hér í gegn.

Það er ekki hægt að stofna lífi fólks í voða út af hroðvirknislegum vinnubrögðum ráðherra. Það er með ólíkindum að ráðherrann skuli segja þetta þrátt fyrir það samkomulag og samstöðu sem var meðal allra sem funduðu hér um helgina, um að við vildum gera þetta vel, að það yrði hluti af yfirlýsingu um þinglok að þetta væri algert forgangsmál í haust, af því við vildum gera þetta vel í samstarfi við þá sem þurfa að nýta sér þessa þjónustu.

Ég krefst þess, ef ekki hér á allt að fara í uppnám, að hæstv. ráðherra leiðrétti þennan misskilning og biðjist afsökunar, bæði í þingsal og fari í fjölmiðla og leiðrétti þetta þar líka. (HKF: Hvernig er hann að stefna fólki í voða?)