146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

byggðaáætlun.

131. mál
[10:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka ráðherra fyrir að eiga hér orðastað við mig um það mikilvæga mál sem byggðamál eru. Nú eru ýmis teikn á lofti um að vegið sé að innviðum landsbyggðarinnar. Gagnrýni hefur komið fram á fjármálaáætlun þess efnis að þar skorti framtíðarsýn fyrir málaflokk sveitarstjórna og byggðamál, auk þess sem framtíðarsýn skorti fyrir málaflokkinn í heild.

Mig langar að gera að umtalsefni það mikilvæga framfaraspor sem stigið var í tíð síðustu ríkisstjórnar þegar lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir voru samþykkt. Vandséð er þegar ferðamenn streyma til landsins sem aldrei fyrr að byggðamálin ættu að vera einkamál landsbyggðarinnar. Því er það fagnaðarefni að þau eru það ekki lengur, heldur koma þessi mál okkur öllum við. Nú er það lögfest að ríki, sveitarfélög og höfuðborgin skuli í sameiningu vinna að mótun byggðastefnu og sóknaráætlunar. Er það mikil breyting frá því sem áður var.

Lögin formfesta nýtt vinnulag við gerð sóknaráætlana og tengja saman byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Ég er sannfærð um að það muni stuðla að markvissari aðgerðum í byggðamálum og enn betri árangri.

Hæstv. forseti. Mig langar að minnast á þær jákvæðu aðgerðir sem ríkisstjórnin hrinti af stað á síðasta kjörtímabili. Það voru aðgerðir sem áttu að jafna búsetuskilyrði og raforkukostnað til húshitunar. Þessar aðgerðir hafa mikla þýðingu fyrir landsbyggðina í heild sinni og eru mikið réttlætismál. Ég fagna því, því að nú að þessi mál eru orðin að veruleika og áfram á dagskrá.

Gott er til þess að vita að átakið Ísland ljóstengt er áfram í fullum gangi því að það er í raun grunnur að byggðafestu og möguleikum fólks til uppbyggingar og skapar raunhæfa möguleika á því sem kallað hefur verið störf án staðsetningar.

Mér leikur forvitni á að vita hvort þetta mikilvæga verkefni sé ekki örugglega fast í sessi til frambúðar.

Verkefnið Brothættar byggðir er líka dæmi um jákvætt skref sem tekið var árið 2012 að frumkvæði Byggðastofnunar með það í huga að leita lausna á bráðum vanda vegna fólksfækkunar og erfiðleika í atvinnulífi undanfarinna ára. Fjárveiting var veitt til verkefnisins árið 2013. Markmiðið var m.a. að fá fram skoðanir íbúanna sjálfra á framtíðarmöguleikum heimabyggðarinnar og leita lausna á þeirra forsendum í samvinnu við ríki, landshlutasamtök, atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög, brottflutta íbúa og aðra. Er ætlunin að halda áfram með það verkefni?

Ég er sannfærð um að lögin munu stuðla að markvissari aðgerðum í byggðamálum en það er ljóst að nægilegu fjármagni þarf að verja til málaflokksins svo árangur náist.

Fréttir hafa borist af fyrirhuguðum lokunum skóla á landsbyggðinni og áhyggjum forsvarsmanna af rekstri ýmissa stofnana, sem er mjög bagalegt. En ég held að ég og ráðherra getum verið sammála um að fleiri leiðir eru til sjálfsbjargar hér á suðvesturhorninu en bjóðast víða á landsbyggðinni. Á síðasta kjörtímabili lét þáverandi ráðherra byggðamála, Gunnar Bragi Sveinsson, Byggðastofnun skoða hvernig beita mætti skattkerfinu til að styrkja byggðir landsins. Slíkt fyrirkomulag þekkist meðal annars í Noregi og Svíþjóð og eru ýmsir útfærslumöguleikar í því sambandi. Sú tillaga að nota skattkerfið var í drögum að nýrri byggðaáætlun sem var, eftir því sem ég kemst næst, svo gott sem tilbúin í janúar.

Ég spyr því: Hvenær er von á nýrri byggðaáætlun til þingsins og hvaða hug ber ráðherra til þess að nota skattkerfið til að styrkja hinar dreifðu byggðir í landinu?