146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

byggðaáætlun.

131. mál
[10:46]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og umræðu um hana. Þetta er mikilvægt mál. Á 143. löggjafarþingi 2013–2014 þann 20. desember lagði þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir 2014–2017. Var hún samþykkt 12. maí 2014. Þingsályktuninni fylgdi aðgerðir í 43 liðum til að ná fram meginmarkmiðum áætlunarinnar.

Unnið er núna að aðgerðum gildandi byggðaáætlunar sem mun renna sitt skeið í árslok. Byggðastofnun fékk í mars 2016 umboð til að vinna að gerð næstu byggðaáætlunar fyrir árin 2018–2024. Sú áætlun er unnin eftir nýju verklagi sem samþykkt var með lögum nr. 69/2015, um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Nýtt verklag fól í sér að ábyrgð á byggðaþróun var færð á fleiri hendur. Byggðaáætlun er eftir sem áður unnin í umboði ráðherra af Byggðastofnun en nú í samvinnu við stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál. Byggðaáætlunin kemur inn á verksvið margra ráðuneyta og hefur aðkoma allra ráðuneyta verið tryggð strax á vinnslustigi áætlunarinnar. Við gerð byggðaáætlunar er auk þess haft samráð við sveitarfélög, landshlutasamtök sveitarfélaga og aðra haghafa eftir þörfum.

Meginmarkmið áætlunarinnar er nú lögfest og miðar að því að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um allt land. Sérstaka áherslu skal leggja á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Hér er verið að skerpa áherslur eldri byggðaáætlana og tryggja að meginþungi sé á þau byggðarlög sem verst standa hverju sinni.

Höfuðborgarsvæðinu var jafnframt bætt við áhrifasvið byggðaáætlunar, enda er það mikilvægur hlekkur byggðaþróunar og samkeppnishæfni landsins. Byggðaáætlun tekur því nú til landsins alls. Sóknaráætlanir og byggðaáætlun eru tengdar að því leyti að sóknaráætlanir skulu framvegis taka mið af meginmarkmiðum byggðaáætlunar og ná yfir sama gildistímabil og byggðaáætlun.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður hafði hér orð á, það er mjög mikilvægt að við jöfnum búsetuskilyrði í landinu. Að mínu mati eru þrjú atriði sem þar standa upp úr. Í fyrsta lagi vil ég segja að ég er ekki sammála hv. þingmanni um að ekki sé tryggt fé til byggðamála. Framlag til byggðamála var aukið á þessu ári um 25% og í ríkisfjármálaáætlun er þetta framlag látið halda sér. Það hefur því verið umtalsverð aukin áhersla lögð á þennan þátt mála. Þá verðum við að nefna Ísland ljóstengt sem er verkefni sem var farið af stað með á síðasta kjörtímabili sem mun auðvitað, eins og hv. þingmaður sagði, gerbreyta búsetuskilyrðum víða um land. Það er markmiðið að ljúka því árið 2020, 2021. Þá verða nánast öll heimili á Íslandi tengd ljósleiðara. Það er auðvitað ekki sjálfsagt í svona stóru landi hjá svo fámennri þjóð. Ég sat í morgun með aðilum úr norrænni pólitík, þar á meðal Dönum, sem byggja land sem er lítið eitt stærra en Suðurkjördæmi hjá okkur og þar búa tæpar 6 milljónir. Þeir eru ekki nálægt okkar í þessu. Við verðum komin í fyrsta sæti í heiminum varðandi þetta mál. Þetta er gríðarlega mikilvægt.

Hin tækifærin liggja í að efla samgöngur við mismunandi svæði og ekki síður að geta dreift raforku um þessi svæði því eins og ég hef áður sagt munu þær atvinnugreinar sem stuðlað hafa að byggðafestu hér á landi á undanförnum áratugum og enn lengra aftur ekki gera það með sama hætti í framtíðinni. Ný tækni og breyttir búskaparhættir eru þess valdandi. Við þurfum því að horfa til nýrra tækifæra á landsbyggðinni, raunhæfra tækifæra. Þar er augljóst að orkan skiptir öllu máli. Þar sitja byggðarlögin ekki við sama borð þegar kemur að mögulegum aðgangi að orku. Þótt enginn sé að tala um að hún sé nýtt til einhverrar mikillar stóriðju á þessum stöðum er það grundvallaratriði að geta boðið upp á fjölbreyttari tækifæri, að geta haft aðgang að okkar grænu orku. Margt fer þar saman eins og t.d. framleiðsla orkunnar og dreifikerfi og uppbygging á því. En því miður hafa þessir þættir verið í allt of erfiðri stöðu hjá okkur, allt of miklum ágreiningi, og við höfum lítið komist áfram á síðustu árum á þessum vettvangi. Ég tel grundvallaratriði fyrir landsbyggðina, ef við eigum að geta mótað tækifæri til framtíðar, að úr þessu verði bætt hið bráðasta.