146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

byggðaáætlun.

131. mál
[10:51]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er ánægð að heyra að hæstv. ráðherra nefnir orkumálin hér í ræðu sinni. Við Framsóknarmenn höfum sérstaklega miklar áhyggjur af þeim málaflokki, þá nefni ég bara orkuöryggi. Það hefur komið fram í umræðum hér á þingi síðustu daga að stórir landshlutar eru orkulausir klukkustundunum saman. Þetta er að gerast ítrekað. Þetta er mikið áhyggjuefni og mikill skaði fyrir atvinnulífið og samfélögin. Þrífösun rafmagns er komin allt of stutt, þar þarf aldeilis að taka til hendinni.

Þar sem tíminn er stuttur langar mig til að nefna hér og benda á umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um fjármálaáætlun sem við höfum verið að ræða í þinginu síðustu daga. Þar kemur fram að sveitarfélögin gagnrýna að framlög til sóknaráætlana til lengri tíma er ekki að finna í fjármálaáætlun, sem er stóra mál ríkisstjórnarinnar sem allt annað byggir á til næstu fimm ára. Ég geri við það stórkostlegar athugasemdir. Þarna eru mikilvæg byggðaverkefni (Forseti hringir.) undir, brothættar byggðir og fleira.

Að lokum: Ríkisstjórnin skilar auðu í samgöngumálum (Forseti hringir.) sem er svo sannarlega eitt stærsta byggðamálið.