146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

byggðaáætlun.

131. mál
[10:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Byggðaáætlun má ekki vera innantómt plagg. Mér hefur fundist það í gegnum árin. Þar eru skrifuð fögur fyrirheit og svo þegar kemur að því að efna þau strandar allt því að það vantar alltaf fjármuni til þess að fylgja þeim eftir.

Allir flokkar hafa lagt fram mjög metnaðarfulla byggðastefnu, en við erum langt á eftir í því að jafna búsetuskilyrði í landinu. Fjármálaáætlun endurspeglar ekki þann vilja sem hæstv. ráðherra talar hér um, að ríkisstjórnin ætli að taka sig á og gera skurk í byggðamálum, langt í frá. Það vantar mikla fjármuni inn í alla innviðauppbyggingu á landsbyggðinni. Brothættar byggðir eru alltaf að verða fleiri og fleiri. Í stað þess að fyrirbyggja það að byggðir verði brothættar er alltaf einhver eftir á redding sem kemur oft og tíðum allt of seint.

Ef við ætlum að meina eitthvað með sóknaráætlun og byggðaáætlun þá verður að sýna það í fullri alvöru. Og fjármálaáætlun, sem skiptir miklu máli til næstu fimm ára, verður að sýna að menn meini eitthvað með því sem þeir segja.