146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

byggðaáætlun.

131. mál
[10:55]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa mikilvægu spurningu. Svo ætla ég að taka undir með hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur að það skiptir voða litlu máli hvað við segjum í þessum stól og hvernig við sláum okkur á brjóst ef því fylgja ekki gjörðir. Stefna hæstv. ráðherra er ljós. Hún kemur fram í ríkisfjármálaáætlun til fimm ára.

Af því að hæstv. ráðherra kom inn á orkumál þá langar mig aðeins að undirstrika mikilvægi þeirra. Staðan er sú að samkvæmt lögum ber enginn aðili þá skyldu að tryggja afhendingaröryggi þegar kemur að almennum markaði. Það er á herðum ýmissa aðila að tryggja afhendingaröryggi þegar kemur að samningum við stórnotendur og fleiri, en það er enginn aðili sem ber þá skyldu að tryggja almenningi í landinu orku. Það er augljóst að taka þarf á í þeim málum.