146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

byggðaáætlun.

131. mál
[10:56]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Eitt af því sem skiptir gríðarlega miklu máli í byggðaþróun og byggðafestu er auðvitað þróttmikill landbúnaður. Nú vitum við að það hefur verið tappi í flöskunni, þ.e. flöskuháls og tappi getum við sagt, þegar kemur að ríkisjörðum. Það hefur gengið mjög illa að fá fram einhverja vitiborna stefnu í sölu eða leigu ríkisjarða og það hefur komið í veg fyrir að jarðir fari í ábúð, sem ættu að vera í ábúð, en hafa farið í eyði eða jarðir sem gætu hentað ungu fólki sem er að byrja búskap. Til dæmis í Skaftárhreppi er þetta mjög áberandi.

Hitt sem ég vil nefna er heilsugæslan. Hún er vanfjármögnuð víða um land einfaldlega vegna þess að álag vegna ferðamennsku er orðið það mikið að íbúar vítt og breitt um landið eru í vandræðum oft og tíðum, það gildir líka um sjúkraflutninga. Menn geta eflaust sagt sem svo að þetta séu ekki aðalatriðin, (Forseti hringir.) en þetta eru atriði sem skipta verulegu máli varðandi búsetuþróun í landinu.