146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

byggðaáætlun.

131. mál
[10:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra og þeim sama hafa tekið þátt í þessari umræðu. Þetta er virkilega aðkallandi mál sem skiptir okkur öll máli. Þess vegna bind ég vonir við það breytta verklag sem komið hefur verið hér á með þverfaglegri vinnu, þvert á ráðuneyti og annað slíkt. Þetta þarf að vera í gegnum alla vinnu hjá okkur. Við þurfum að setja upp gleraugu byggðasjónarmiða í hverju máli sem við tökum fyrir, það tel ég að sé afskaplega mikilvægt.

Hv. þingmenn komu hér inn á ýmis atriði. Grunnurinn að því að við getum talað um jafnrétti til búsetu er að allir hafi aðgengi að ljósleiðara og tengingum um allt land. Við höfum í mörg ár og áratugi talað um störf án staðsetningar, það er ekki raunhæft og eðlilegt að tala um það, við getum ekki sagt það fyrr en við erum komin með þetta í lag. Við búum í stóru landi, þetta er dýrt, en við þurfum virkilega að leggja áherslu á það. Ég fagna því að svo skuli vera gert áfram.

Þá komum við aftur að orkuflutningum, eins og nokkrir hafa minnst á. Það er skelfilega staða sem mörg sveitarfélög eru í, að ekki er hægt að stækka lítil og meðalstór fyrirtæki af því að orku vantar. Það er ekki hægt að setja upp fatahreinsun á Akureyri af því að það vantar orku. Þetta er annað mál sem við verðum öll að leggjast á eitt með að vinna að og laga.

Ég tek líka undir með hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni um ríkisjarðirnar. Við Framsóknarmenn erum með áætlun um nýtingu á þeim, á ríkisjörðunum. Þetta er gríðarlega mikið mál í mörgum byggðarlögum þar sem hvert bú skiptir máli og hver jörð sem búið er á. Ég vona að við getum unnið þetta áfram.

En við lifum í breyttu samfélagi og við þurfum, eins og hv. þingmaður kom inn á áðan, að vera með skilgreiningar á grunnþörfum samfélaganna betur á hreinu. Það held ég að sé verkefni fyrir okkur öll að vinna að.