146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

byggðaáætlun.

131. mál
[11:00]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Bara til þess að ítreka það þá er aukning í byggðamálin upp á tæpar 400 milljónir á milli ára, þar af 50 milljónir til viðbótar við það sem var á síðasta ári í flokkinn Brothættar byggðir.

Fólk fer hér ansi mikinn um það hvað þurfi að gera og hvað sé ekki verið að gera. Talað er um að ríkisstjórnin skili auðu þegar komi að samgöngumálum. Það eru settir 5,8 milljarðar til viðbótar í samgöngumálin á þessu ári. Það er engan veginn nóg, enda erum við að skoða aðrar þær leiðir sem við mögulega getum farið í þeim efnum því að þetta er mikilvægur málaflokkur, ekki síst fyrir landsbyggðina, en þó ekki síður hér á slysamestu svæðunum.

Það er talað um að svæði séu raforkulaus. Það eru kannski ekki síst þingmenn Vinstri grænna sem koma inn á hversu mikilvægt það sé að efla dreifikerfi raforku og að hægt sé að afhenda raforkukerfi til þeirra byggða sem í dag geta ekki aukið á fjölbreytni atvinnulífs og verðmætasköpunar því að það er ekki raforku að hafa til að byggja upp jafnvel smáan iðnað á þeim stöðum í samanburði við stóriðjuna. Það er þetta sama fólk, virðulegur forseti, sem kom í veg fyrir það á því kjörtímabili þegar það fór með völd að haldið yrði áfram á þeim vettvangi. Ég varaði við því í ræðu minni fyrir um sjö árum síðan þegar hv. þm. Svandís Svavarsdóttir (Gripið fram í.) hafði frumkvæði að því að leggja stein í götu rammaáætlunar og skynsamlegrar nýtingar orkuauðlinda okkar að staðan yrði eins og hún er í dag. Þetta eru afleiðingar þess. Ég varaði við því á þeim tíma og við erum að upplifa nákvæmlega þá stöðu.

Það er líka ekki í lagi fyrir okkur sem þjóð að það skuli ekki hafa verið núna í níu ár hægt að leggja línu í meginflutningskerfi raforku á Íslandi. Landsnet hefur ekki getað lagt línu í meginflutningskerfi raforku vegna endalausra kærumála. Við verðum nefnilega að láta fara saman orð og efndir, gera okkur grein fyrir því að við getum ekki haft löggjöfina með þeim hætti og ekki komið okkur saman um að hægt sé að framkvæma það sem kallað er eftir.

Það er mjög mikilvægt að við (Forseti hringir.) skoðum þetta mjög vel. Ég get sagt í lokin að það er ekki rétt sem kom fram hjá einum þingmanni Vinstri grænna áðan að það væru sveitarfélögin (Gripið fram í.) sem væru að leggja ljósleiðarana, heldur er það samstarfsverkefni og það eru um 2,5 milljarðar hjá ríkinu sem fara í það verkefni (Gripið fram í.) á móti (Forseti hringir.) sirka 2 milljörðum frá sveitarfélögunum. Nú er kallað fram í því að sannleikanum (Forseti hringir.) verður stundum hver sárreiðastur þegar kemur að þessum málum. (Gripið fram í.)