146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

viðbrögð við áliti Eftirlitsstofnunar EFTA um löggjöf um leyfi til leigubílaaksturs.

369. mál
[11:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Pawel Bartoszek) (V):

Virðulegi forseti. Lög og reglugerðir þurfa að vera í takt við tímann. Öll þau boð og bönn sem Alþingi hefur samþykkt þurfa helst að vera þannig að við myndum líka samþykkja þau í dag. Úreltum ákvæðum ætti að kippa út. Ákvæðum sem hamla eðlilegri framþróun ætti að breyta.

Ég legg fram fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra. Ég er sannfærður um að núgildandi lög og reglur um leigubíla eru ekki að fullu í takt við tímann. Álit Eftirlitsstofnunar EFTA frá 22. febrúar sl., þar sem norsk löggjöf um leigubíla er gagnrýnd, er eitthvað sem við ættum að lesa vel, enda er norska löggjöfin keimlík þeirri íslensku.

Eftirlitsstofnunin hafði út á þrennt að setja; fjöldatakmörkun atvinnuleyfanna, veitingu atvinnuleyfanna og kröfuna um aðild að leigubílastöð. Í fyrsta lagi þóttu norsk stjórnvöld ekki sýna nægilega vel fram á að fjöldatakmörkun á atvinnuleyfum væri yfir höfuð nauðsynlegt ríkisinngrip, en í íslensku reglugerðinni er talað um að samgönguráðuneytið eigi að fara yfir og endurskoða fjölda atvinnuleyfa á hverju svæði og grípa til aðgerða ef marktækt ójafnvægi hefur myndast milli eftirspurnar og framboðs. Ég er reyndar á því að frjáls markaður en ekki stjórnvöld sé best til þess fallinn að koma á slíku marktæku jafnvægi.

Í öðru lagi var leyfisveiting sögð mismuna nýliðun þar sem ný leyfi eru einungis gefin út undir sérstökum kringumstæðum. Sérstaklega getur þetta fyrirkomulag mismunað erlendum ríkisborgurum. Það gengur gegn grunnstoðum Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins um frjálsa flutninga fólks og þjónustu.

Í þriðja og síðasta lagi var krafan um aðild að leigubílastöð gagnrýnd. Fyrir henni hafa verið færð margs konar rök, í fyrsta lagi krafan um aukin þægindi og síðan öryggi notenda, að það sé gott að geta hringt í eitt númer. Þeir aðilar sem í dag bjóða upp á nýstárlegri leigubílaþjónustu víða um heim gera notendum kleift að þurfa einungis að nota eitt snjallsímaforrit, ekki einu sinni símanúmer. Hins vegar koma gjarnan rök um öryggi farþega og bílstjóra. Þá vil ég benda á að ef stórborgir með margar milljónir íbúa leyfa þjónustu sem byggir á deilihagkerfi ætti friðsælasta land í heimi ekki að örvænta.

Frelsun á leigubílamarkaði hefði svo mikið meira í för með sér en að fjölga leigubílum á götunum; samgöngur myndu batna, biðraðir eftir skutli um helgar myndu þurrkast út, bílar gætu nýst betur. Við ættum að bregðast við frelsi með gleði en ekki tortryggni. Við ættum að spyrja okkur sjálf: Ef við værum að skrifa þessi lög í dag myndum við komast að þessari niðurstöðu sem við búum við?

Ég geri mér vitanlega grein fyrir því að Ísland er ekki Noregur, en þær reglugerðir sem Eftirlitsstofnun gagnrýnir er einnig að finna á Íslandi í mjög svipaðri mynd.

Ég spyr því hæstv. samgönguráðherra hvort og þá hvernig hann hyggist bregðast við álitinu sem verður að teljast falleinkunn fyrir íslenska umgjörð leigubílaaksturs ekki síður en þá norsku.