146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

viðbrögð við áliti Eftirlitsstofnunar EFTA um löggjöf um leyfi til leigubílaaksturs.

369. mál
[11:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Pawel Bartoszek) (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega svörin sem og hv. þm. Teiti Birni Einarssyni fyrir athugasemd hans. Ég geri mér, eins og ég sagði í ræðunni, fyllilega grein fyrir því að Ísland er ekki Noregur og við verðum að fara eftir okkar eigin leiðum í þessu og fylgja þeim ferlum. Það er fróðlegt að heyra að hafin séu einhver samskipti milli íslenskra stjórnvalda og Eftirlitsstofnunar EFTA. Það verður fróðlegt að sjá hvert það leiðir okkur en óneitanlega höfum við fullkomið frelsi til að haga þeim málum með frjálslyndari hætti ef við kjósum að fara þá leið.

Hér hafa verið nefndar nokkrar tæknilegar lausnir sem hafa rutt sér til rúms víða um heim. Uber er eitt þannig fyrirtæki, Lift er annað og við þurfum kannski ekkert endilega að fókusera á einstök dæmi eða einstök fyrirtæki eða að sjá þau í einhverjum óheyrilegum dýrðarljóma. Þetta er einfaldlega þjónusta sem eins og gengur og gerist er komin á ákveðinn markað og nýtir sér tækni og möguleika á að tengja milli viðskipta, tengja viðskipti milli einstaklinga sem geta veitt ákveðna þjónustu og einstaklega sem þurfa á henni að halda. Við getum gert þetta nokkuð frjálst eða við getum stigið einhver smærri skref. Við getum t.d. afnumið fjöldatakmörkun og liðkað örlítið fyrir því án þess þó að draga úr því lagaumhverfi sem fyrir liggur. Það væri kannski gaman að heyra örlítið hvaða hugmyndir ráðherrann sjálfur hefði í þeim efnum, hvaða hugmyndir hann hefði um það hvernig þessi löggjöf myndi líta út ef svo færi að við vildum, eða þyrftum, bregðast við þessu ákalli bæði samtímans og líka Eftirlitsstofnunar EFTA.