146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

heimaslátrun og aukinn fjölbreytileiki í matvælaframleiðslu.

224. mál
[11:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Teitur Björn Einarsson) (S):

Frú forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra snýr að því hvernig auka megi fjölbreytileika í íslenskri matvælavinnslu sem kæmi bæði neytendum og bændum til góða. Það eru margvísleg sóknarfæri í íslenskum landbúnaði, ýmsir möguleikar eru í boði til að styrkja starfsemi í hinum dreifðu byggðum landsins. Það getur verið í gegnum hvers konar nýsköpun, ræktun nýrra afurða, rekstur á ýmissi þjónustu í tengslum við fjölgun ferðamanna og svo er það virðisaukning, aukin virðisaukning í keðjunni með frekari vinnslu búvara, eða svokölluð heimavinnsla og sala afurða beint frá býli.

Á síðustu árum ef ekki áratugum hefur sláturhúsum fækkað mjög hér á landi. Í kjölfar þess hefur m.a. sprottið upp sú umræða um þá stöðu sem er að lifandi búfénaður er fluttur í dag um mjög langar vegalengdir til næstu afurðastöðva, fulllangar vegalengdir að mati sumra. Eins koma upp vandamál í dag sem tengjast getu þessara sláturhúsa til að anna eftirspurn og þróa vörur með eðlilegum hætti.

Þess þekkjast dæmi erlendis að brugðist hefur verið við svipaðri þróun og hér er, svo sem með rekstri færanlegra sláturhúsa. Á Norðurlöndunum, þar sem ég hef séð dæmi, m.a. í Noregi, hafa þeir komið sér upp tveimur tegundum sláturhúsa, þ.e. hús sem slátra einungis fyrir heimamarkað og svo sláturhús með útflutningsleyfi sem eru vottuð og uppfylla kröfur ESB. Hér þarf að sjálfsögðu að huga ávallt að matvælaöryggi, að rekjanleika vörunnar og tryggja ábyrgð framleiðenda, að þeir standist kröfur um aðbúnað og hollustuhætti. Þetta er engin töfralausn fyrir bændur sem vilja stærri hlut í virðiskeðjunni. Þeir verða eftir sem áður að standast samkeppni um verð, gæði, fjölbreytileika, verða við kröfum neytenda o.s.frv.

En það er hlutverk stjórnvalda þegar hér kemur við sögu að tryggja rétta umgjörð í lagaverkinu, umgjörð sem nú til dags þykir mögulega með of hátt flækjustig, of mikið skrifræði og íþyngjandi kröfur. Því beini ég þeim spurningum til ráðherra í þremur liðum hvort hann sjái í þessu tækifæri til að rýmka þessar reglur (Forseti hringir.) og hvað hægt sé að gera á kjörtímabilinu til að svo megi vera.