146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

heimaslátrun og aukinn fjölbreytileiki í matvælaframleiðslu.

224. mál
[11:24]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef hér og hvar, m.a. í bókum, varað við samþjöppun í matvælaframleiðslu á Íslandi sem hefur viðgengist í mörg ár. Ég vil raunverulega gera meira úr loftslagsmálum í þessu sambandi en komið hefur fram í máli manna, minnka flutninga á landinu og jafnvel innflutning að hluta. Ég held að loftslagsmálin séu þess eðlis orðin að menn þurfi að hyggja að því. Búið er að nefna hér dýravernd. Ekki er farið illa með dýr almennt á Íslandi en ég held að hægt sé að fara betur með þau með því að stytta flutningsleiðir, m.a. í sláturhús. Augljóslega varðar þetta mál mikið atvinnu í byggðarlögum, það sést vel t.d. í Skaftárhreppi, og ekki síst þegar kemur að ferðaþjónustunni því að ferðamenn sækjast eftir vörum heiman úr héraði. Ég tel að opinberir aðilar þurfi að koma að þessu í meira mæli, aðstoð við að koma á afurðaframleiðslu eða slátrun (Forseti hringir.) í gegnum byggðaáætlanir eða Byggðastofnun og síðast en ekki síst í gegnum aukna nýsköpun. Þar koma opinberir aðilar sterkt inn.