146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

heimaslátrun og aukinn fjölbreytileiki í matvælaframleiðslu.

224. mál
[11:28]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það eru áhugaverðar athugasemdir hérna. Mig langar að vísa stuttlega í nýútkomna stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar þar sem segir að styðja þurfi við nýsköpun í ríkisrekstri. Þar segir einnig að aðkoma ríkisins að slíkum umbóta- og þróunarverkefnum sé þó um margt tilviljana- og brotakennd, að það sé engin heildstæð stefna þar á meðal, og hvetur Ríkisendurskoðun til heildstæðrar stefnumótunar.

Þessi fyrirspurn hljómar mjög kaldhæðnisleg í mínum eyrum þar sem það er nýbúið að gera nýja búvörusamninga. Þetta mál hljómar rosalega mikið eins og mjólkurmálið mikla. Það eru alveg nákvæmlega sömu rök að baki þessu máli og framleiðslu á mjólk og dreifingu. Ég held að við ættum að huga aðeins að því hvernig þau mál vinna saman.