146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

löggjöf gegn umsáturseinelti.

462. mál
[11:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Eins og fram hefur komið í orðaskiptum okkar telur allsherjar- og menntamálanefnd öll að rétt sé að setja sérstakt lagaákvæði um umsáturseinelti í íslenska löggjöf, en jafnframt sé mikilvægt að ekki sé dregið úr þeirri réttarvernd sem þegar er til staðar, eins og fram hefur komið í máli ráðherra.

Í nefndarálitinu kemur líka fram að til standi að hefja slíka vinnu af hálfu ráðuneytisins. Hér kemur fram í svari ráðherra að refsiréttarnefnd hafi þegar verið falið að taka þetta til sérstakrar athugunar. Hvorug okkar hefur nefnt það sem kemur einnig fram í nefndarálitinu, að nefndin hvetur til þess að sú vinna skili sér til Alþingis í haust í formi frumvarps og var þá náttúrlega átt við haustið 2016. Nú erum við komin fram á vorið 2017. Því vil ég biðja hæstv. ráðherra að vera ögn nákvæmari í svörum sínum að því er varðar væntanlegt frumvarp þar sem beinlínis er tekið á þeim mikilvæga þætti, sem er sannarlega áhyggjuefni hjá þeim sem fyrir umsáturseinelti verða og engum vafa undirorpið að þessi staða verður að endurspeglast með einhverjum hætti í löggjöfinni.