146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

málefni Hugarafls.

491. mál
[11:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svörin. Mig langar að biðja hann um að freista þess í síðari umferðinni að skerpa nokkuð á þeim. Fram kemur í svari hans að ekki sé um fastar fjárveitingar að ræða heldur ráðist fjárveitingarnar hverju sinni af fjölda umsókna og upplýsinga sem fram koma í þeim. Þá vil ég biðja ráðherrann að reyna að svara því með afgerandi hætti hvað það var í upplýsingum um starfsemi samtakanna Hugarafls beinlínis á milli ára sem gerði það að verkum að talan breyttist á milli ára.

Ráðherrann svaraði þessum þætti með frekar almennum hætti og ég vil freista þess að kalla fram skýrari svör í þessu út af fyrir sig.

Síðan vil ég spyrja ráðherrann í ljósi þess að vandi heilbrigðiskerfisins er töluverður og ekki síst hefur margverið bent á stöðu geðheilbrigðisþjónustunnar og þann vanda sem þar er fyrir hendi og ekki síst á geðdeildum Landspítalans vegna þess að álagið er mun meira en þjónustan annar, hvernig hann sjái fyrir sér samspil frjálsra félagasamtaka á borð við Hugarafl og þeirrar opinberu þjónustu sem við bjóðum upp á. Sér hann fyrir sér að þetta samspil geti orðið enn ríkara og skýrara í framtíðinni? Þarna er um að ræða afar viðkvæman hóp sem þarf skýra umgjörð og það er í raun og veru á hendi ráðherra að veita þau skýru svör sem fækkar efasemdum og óljósum þáttum í þessari umgjörð allri.