146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

málefni Hugarafls.

491. mál
[12:01]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að svara nákvæmar eins og hv. þingmaður óskaði eftir í sambandi við fjárveitingarnar. Þegar upphæðin var ákveðin af velferðarstyrkjum heilbrigðisráðherra var horft til umsókna en líka fjölda umsækjenda og þess vegna var nokkur lækkun þar á á milli ára. Stóri munurinn er þó sá að árið 2016 voru veittar 5 milljónir í styrk sem var úthlutað af fjárlaganefnd þó að það færi síðan í gegnum liði velferðarráðuneytisins, en fyrir árið 2017 úthlutaði fjárlaganefnd ekki sérstaklega til samtakanna. Í því felst fyrst og fremst munurinn á milli ára.

Ég tek undir með hv. þingmanni um að utanumhald eða kerfi varðandi geðheilbrigðisþjónustu í dag er að mörgu leyti óljóst. Það eru mörg úrræði, meðferðarúrræði félagasamtaka og sömuleiðis opinberra aðila, en þetta hefur í rauninni þróast þannig undanfarna áratugi að kerfið er nánast óskiljanlegt frá sjónarhorni sjúklinga og aðstandenda þeirra, eins og kemur fram í minnisblaði frá embætti landlæknis sem barst velferðarráðuneytinu í janúar.

Á sama tíma er þess að geta að samvinna félaga hefur aukist, bæði sín á milli og einnig við heilbrigðisstofnanir, og samkvæmt samþykktri geðheilbrigðisstefnu höfum við aukið í til þessa málaflokks, sérstaklega hjá heilsugæslunni þar sem hefur verið í gangi fjölgun sálfræðinga en einnig uppbygging á geðheilbrigðisteymum svokölluðum sem vinna síðan í samvinnu við frjáls félagasamtök. Ég tel þetta góða þróun sem á að halda áfram og þakka fyrir góða umræðu.