146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

kærunefnd jafnréttismála og Jafnréttisstofu.

545. mál
[12:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég tel það ekki til sóma að við úrskurðunum, sem eru bindandi, séu í raun engin skýr viðbrögð. Það er meira en að segja það að leita til dómstóla til að leita réttar síns þegar slíkur úrskurður hefur fallið. Mér finnst mjög eðlilegt að það sé skoðað í þeirri heildarendurskoðun sem hæstv. ráðherra boðar, að það séu einhver skilgreind viðbrögð, því að þetta er stórmál, ekki síst fyrir þjóð sem vill vera í fararbroddi í jafnréttismálum á heimsvísu og kynnir sig sem slíka. Þá er mikilvægt að orðum fylgi gjörðir. Í þessu máli og í þeim sem ég nefndi í fyrirspurn minni er mikilvægt að viðbrögðin séu ekki tilviljanakennd, að skýrir ferlar séu fyrir hendi.

Hæstv. ráðherra nefndi að fyrirhuguð væri heildarendurskoðun jafnréttislaga í haust og að sérfræðihópur myndi koma þar að, en síðan yrðu kvennahreyfingar, aðilar vinnumarkaðarins og fleiri kallaðir til. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji rétt að stjórnmálaflokkarnir komi með einhverjum hætti að þeirri heildarendurskoðun, því að þetta er risastórt mál sem ég tel að færi best á að væri unnið í samstarfi þeirra flokka sem eiga sæti á Alþingi. Þó að sjálfsögðu þurfi að kafa í málin af hálfu sérfræðinga er líka mikilvægt að sem breiðust samstaða náist um þessi mál svo að við getum unnið þau hér á þingi þannig að sem bestur árangur náist.

Mig langar að lokum að segja að ég tel að það sé algjört lykilatriði að stjórnsýslustofnun okkar, Jafnréttisstofa, fái mjög skýrar heimildir við þessa endurskoðun sem og að brot á jafnréttislögum (Forseti hringir.) verði ekki látin óátalin eða það sé í raun tilviljun háð hvaða afleiðingar þau hafi.