146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

kærunefnd jafnréttismála og Jafnréttisstofu.

545. mál
[12:16]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur fyrirspurnina. Ég er bara sammála orðum hv. þingmanns hvað snýr að mikilvægi þess að úrskurðir séu skýrir, úrræði séu skýr, til að framfylgja þeim þegar þeir liggja fyrir. Það getur verið eðli máls samkvæmt mismunandi hvaða úrræða hægt er að grípa til þegar úrskurður liggur fyrir. Úrskurður getur verið tæknilegs eðlis eins og virðist vera í því máli sem hér er um að ræða, að einfaldlega hafi verið annmarkar á viðtals- eða ráðningarferlinu þannig að ekki hafi verið ljóst hvaða atriði lágu til grundvallar við endanlegt mat á hæfi. Þá er auðvitað mikilvægt að beina þeim tilmælum til viðkomandi stofnana eða ráðuneytis að bæta þar úr í ráðningarferli því að þetta þarf auðvitað að vera mjög skýrt.

En síðan er mikilvægt þegar um skýr og klár brot er að ræða, þar sem kærunefnd jafnréttismála kemst að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn rétti starfsmanns eða umsækjanda, að það séu skýr úrræði sem hægt sé að beita til að tryggja rétt viðkomandi einstaklings. Ég held að það sé mjög mikilvægt í endurskoðun jafnréttislaganna að slík úrræði verði tekin til skoðunar.

Ég fagna orðum hv. þingmanns um mikilvægi þess að sú endurskoðun byggi á víðtækri pólitískri sátt og ég held að það væri mjög skynsamlegt að fulltrúar stjórnmálaflokka kæmu að þessari vinnu og mun taka það til skoðunar í ráðuneytinu hvernig hægt sé að tryggja að svo verði þannig að málið komi vel rætt og ígrundað til meðhöndlunar í þinginu þegar þar að kemur.

Ég þakka enn og aftur fyrirspurnina og góða umræðu.