146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

heimagisting.

500. mál
[12:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Á síðasta þingi var lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald breytt þannig að skilgreind var svokölluð heimagisting, þ.e. gisting sem maður býður í íbúðarhúsnæði, sem ekki er þá skilgreint sem atvinnuhúsnæði, gegn endurgjaldi. Voru þar sett ákveðin ákvæði, annars vegar skráningarskylda, sem gerir það að verkum að þeir sem vilja leigja fasteignir í eigin eigu til þess að bjóða til að mynda erlendum ferðamönnum þurfa að skrá slíka notkun. Sett er ákveðið hámark um að fjöldi útleigðra daga skuli ekki fara yfir 90 daga á hverju almanaksári og samanlagðar tekjur af leigu skuli ekki fara yfir hærri tiltekna fjárhæð. Það á við um fasteign sem maður býr í sjálfur eða eina aðra fasteign sem maður á til eigin nota, ekki atvinnuhúsnæði, í báðum eignum.

Síðan voru sett inn í lögin ákvæði um skráningarskyldu hjá sýslumanni og hvað þyrfti til þess að slíkar eignir væru afskráðar. Það væri til að mynda ef viðkomandi aðili færi yfir þessa 90 daga eða fjárhæðin væri hærri eða eitthvað slíkt.

Þessi lög voru sett og samþykkt í tiltölulega góðri sátt á Alþingi, enda mjög mikilvægt að það sem við köllum í daglegu tali, Airbnb, sem er þá tilvísun í tiltekið fyrirtæki sem hefur verið þekkt fyrir slíka miðlun — þau eru auðvitað fleiri — og aðrar skráningar kæmu upp á yfirborðið til þess að af því væri þá greiddur eðlilegur skattur. Við erum nú með annað frumvarp í þinginu um skattheimtuna af slíkum rekstri. En um leið hefur maður orðið var við, og ég þykist vita að hæstv. ráðherra hafi heyrt í allmörgum í sambandi við það, að fólk hefur áhyggjur af því hvernig eftirlitinu er háttað með því að þessi ákvæði séu virk, hver nákvæmlega fylgist með því að maður fari ekki yfir 90 daga eða að fjárhæðin fari yfir tiltekin mörk.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig hefur þessu eftirliti verið háttað og hvaða fjármagni hefur verið varið til slíks eftirlits? Telur hæstv. ráðherra að nægjanlega vel sé búið um þetta fyrirkomulag heimagistingar í núverandi lögum? Það sem við hv. þingmenn heyrum á fundum okkar víða um land er annars vegar að heimagisting, sem er að mörgu leyti frábær kostur og ég hef sjálf nýtt mér á ferðum mínum erlendis með mína stóru fjölskyldu, getur auðvitað valdið ónæði, til að mynda í fjölbýlishúsum, svo dæmi sé tekið. En auðvitað er þetta líka samkeppni við þá sem eru í gistihúsarekstri, þannig að það er mjög mikilvægt að mörkin séu virt.

Að lokum langar mig að spyrja ráðherra: Hvernig hefur þróunin verið í þeirri skráningu á heimagistingu, þ.e. urðu raunverulegar breytingar á þessum skráningum með þessum lögum?