146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

heimagisting.

500. mál
[12:40]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda og ráðherra svörin. Ég ræddi þetta töluvert þegar málið kom fram á sínum tíma hjá þáverandi hæstv. ráðherra Ragnheiði Elínu Árnadóttur. Það var akkúrat þessi eftirlitsþáttur sem við höfðum töluverðar áhyggjur af. Ég heyri ekki betur en að ráðherrann ætlist til þess að það sé frumkvæðiseftirlit hjá sveitarfélögunum en þau segja að þetta sé mjög erfitt, þau fái ekki tilkynningar um nýskráningar þannig að eitthvað er brogað gagnvart sveitarfélögunum. Síðan var lagt upp með 8 þús. kr. gjald sem einstaklingar áttu að borga, sem sagt að skrá sig og borga. Núna virðist það vera þannig að innheimtir eru hærri fasteignaskattar og annað slíkt sem var aldrei til umræðu þegar við fjölluðum um málið. Það hefur kannski m.a. orðið til þess að fólk kemur ekki upp á yfirborðið eins og lagt var upp með. Og svo er auðvitað bagalegt að sveitarfélög sem nánast höfðu lagt bann við að um skammtímaleigu yrði að ræða í íbúðakjörnum eru óvarin gagnvart þessu. Nú sitja þau uppi með að geta ekki gert neitt. Fyrir utan svo fyrirtæki sem eru í hinum (Forseti hringir.) dreifðu byggðum og eru jafnvel bara með rúmlega 90 daga leigurétt en borga samt full gistileyfagjöld.