146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

heimagisting.

500. mál
[12:44]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þeirra orð. Ég tek undir þau varðandi samspil við sveitarfélögin og tól og tæki þeirra. Það snýr nefnilega líka að eftirlitinu. Þess vegna hef ég velt því fyrir mér hvort það að eftirlitið sé hjá einu sýslumannsembætti sem er á höfuðborgarsvæðinu henti fyrir landið allt. Úti á landi eru tiltölulega lítil sveitarfélög og kannski á eftirlitið betur heima þar, þar er auðveldara að hafa yfirsýn yfir rekstur í bænum. En auðvitað er svarið og framtíðin að þetta þarf að vera rafrænt og um sé að ræða samkeyrslu gagna. Það er eina vitið.

Það er alveg rétt og þess vegna er þetta líka stórt mál að þetta snertir ekki bara samkeppnisstöðu í þessum atvinnurekstri heldur líka húsnæðismarkaðinn. Það er ekki hægt að taka þetta í sundur. Þetta hefur mikil áhrif, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Við sjáum að það virðist vera hagkvæmara fyrir fólk að leigja húsnæði í svona útleigu og þá, sérstaklega ef við búum ekki rétt um embættið sem á að vera með eftirlitið, fyllast auðvitað mörg pláss af ferðamönnum frekar en Íslendingum sem eru að reyna að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Það að hafa þessa hluti í lagi mun hjálpa á öðrum sviðum líka.

Rétt í lokin varðandi frumvarpið sem ég er ánægð að heyra að verði væntanlega að lögum er þetta önnur hliðin á peningnum. Það er erfitt að vera búin að samþykkja þessar reglur sem urðu að lögum á síðasta ári, en ekki undanþáguna sem umhverfisráðherra leggur fram því við náum ekki markmiðum (Forseti hringir.) hinna laganna nema þetta fylgist að. Það er alla vega gott að það sé komið. En ég tek undir að þetta kallar á mikla umræðu og við þurfum að gera betur.