146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

aðkoma Stjórnstöðvar ferðamála að ákvörðun um virðisaukaskattsbreytingu.

508. mál
[12:53]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Breytingar á virðisaukaskatti hafa eflaust áhrif á afkomu ferðaþjónustunnar. Ég ætla ekki að eyða þessum fáeinu sekúndum í að ræða það, heldur annað mál sem ég held að hafi mjög mikil áhrif á ferðaþjónustuna, þ.e. verðlagningu almennt á því sem að ferðaþjónustu lýtur; mat, drykk, gistingu, afþreyingu, bílaleigum og öðru slíku. Ég hef lengi haldið því fram að verðlag væri óeðlilega hátt á Íslandi á flestu af því sem ég hef nefnt. Ég held að það hafi í sjálfu sér jafn alvarleg eða mikil áhrif á framtíð ferðaþjónustunnar ef fram heldur sem horfir, að við höfum áfram þetta mjög svo háa og óeðlilega verðlag, einkum á sumrin þar sem menn eru að reyna að taka inn hagnað eða tekjur vegna þess hversu fáir ferðamenn hafa verið hér á veturna. Ég tel að þetta sé óeðlileg staða. Ég vil gjarnan heyra skoðun hæstv. ferðamálaráðherra á því.