146. löggjafarþing — 73. fundur,  29. maí 2017.

aðkoma Stjórnstöðvar ferðamála að ákvörðun um virðisaukaskattsbreytingu.

508. mál
[12:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það liggur sem sagt fyrir að ekkert samráð var haft við Stjórnstöð ferðamála, sem er þó samkvæmt lögum í grunninn samráðsvettvangur og þar á að vera heildstæð nálgun á þróun greinarinnar. Í raun og veru hefur Stjórnstöð ferðamála ekki nýst sem skyldi og er sniðgengin í þessari tilteknu ákvörðun stjórnvalda, enda skilur ráðherra gagnrýnina vel, eins og fram kemur í máli hennar.

Mig langar þá að spyrja í hið síðara sinn spurningar sem er bara blátt áfram. Hún er þessi: Er Stjórnstöð ferðamála til einhvers? Væri þá ekki heiðarlegast að leggja hana niður ef hún fjallar ekki um svona stór og mikil mál? Um hvað ætti hún þá að fjalla, á bara að taka myndir af henni? Er þetta bara skrautsýning eða er þetta til einhvers?

Hins vegar vil ég spyrja ráðherrann, það er kannski spurning sem brennur meira á þinginu akkúrat hér og nú. Ráðherrann tekur undir gagnrýni á að breytinguna varðandi virðisaukaskattinn á greinina hafi borið fullbratt að o.s.frv. og að samráðið hafi ekki verið nægilegt og því um líkt: Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að það sem út af stendur í fjármálaáætlun verði fjármagnað? Telur hún að niðurstaðan gæti orðið sú sama en bara með meira samráði við greinina, lengri aðdraganda o.s.frv., eða hefur hún aðrar hugmyndir um tekjuöflun fyrir ríkissjóð til þess að fjármálaáætlun sé í raun afgreidd í jafnvægi þegar allt kemur til alls?