146. löggjafarþing — 74. fundur,  29. maí 2017.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:20]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Nú líður að lokum þessa þings, þings þar sem Björt framtíð hefur starfað í ríkisstjórn með Viðreisn og Sjálfstæðisflokknum. Við í Bjartri framtíð gerum okkur grein fyrir því að þeir málaflokkar sem við berum ábyrgð á, sem eru heilbrigðismál og umhverfismál, eru ekki auðveldir, en þeir eru mikilvægir. Við tökum þeirri áskorun af fullri alvöru og af mikilli ábyrgð.

Heilbrigðismálin eru forgangsmál. Landsmenn vilja efla heilbrigðiskerfið, þeir vilja minnka álögur á sjúklinga og auka fjárframlög. Við erum á þeirri leið. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn á að við náum að standa saman að uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar, að innan fárra ára verðum við komin með Landspítalann undir eitt þak, að við fjölgum hér hjúkrunarheimilum, eflum heilsugæsluna, bætum geðheilbrigðisþjónustuna og að til verði skýr og skilvirk heilbrigðisstefna sem inniheldur vilja og kröfu þjóðarinnar um gott heilbrigðiskerfi. Í þeirri vinnu minnum við okkur á að það krefst hugrekkis að fylgja sannfæringu sinni, boða sýn, treysta fólki, hlýða á rök og upplýsingar, standa í fæturna og axla ábyrgð. Það ætlum við í Bjartri framtíð að gera.

Annað sem mig langar til að ræða hér og á bæði við um heilbrigðismál og umhverfismál er lýðheilsa. Það hljómar kannski ekki mikilvægt, en að mínu mati er það eitt hið mikilvægasta efnahagsmál framtíðarinnar. Það varðar börnin okkar, það varðar eldri borgara, það varðar tækifærin okkar til þess að vera virk í samfélaginu og það varðar lífsgæði okkar allra.

Stundum er fjallað um eldri borgara með þeim hætti að það sé vandamál hvað þeim fjölgar. Ég lít ekki svo á. Áskorunin er góð lýðheilsa og lífsgæði eldri borgara, að eldri borgarar hafi val um þá þjónustu sem hentar hverjum og einum. Lýðheilsa er ekki einkamál ríkis og sveitarfélaganna. Það verður að vera samvinnuverkefni okkar allra.

Í lýðheilsulegu samhengi langar mig líka til þess að nefna sérstaklega geðheilbrigðismál. Allt of stór hópur ungs fólks glímir við geðræna erfiðleika sem valda skerðingu á lífsgæðum þeirra, tekur líf þeirra sumra. Því þarf að breyta. Það er fullkomlega óásættanlegt að tapa lífi ungs fólks sem á framtíðina fyrir sér. Nú þegar hefur verið ráðist í aðgerðir af hálfu heilbrigðisráðherra til aukinnar geðræktar, m.a. með fjölgun sálfræðinga á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Heilsugæslan hefur brugðist við með því að mennta hjúkrunarfræðinga og efla þverfaglegt starf innan heilsugæslunnar.

Í lýðheilsulegu samhengi langar mig líka til þess að tala um umhverfismál. Loftslagsmálin eru einmitt einhver sú stærsta áskorun sem mannkynið stendur frammi fyrir. Fyrir utan þann sjálfstæða rétt að við fáum að draga að okkur hreint loft, hvort sem það er á Suðurnesjum eða á höfuðborgarsvæðinu, þá þurfum við að gera miklu betur í loftslagsmálum. Við þurfum að bregðast hraðar við og eigum að setja okkur það markmið um að vera í fararbroddi á alþjóðavettvangi hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda, vera í fararbroddi í náttúruvernd og í því að aðlaga okkur að lágkolefnishagkerfi framtíðarinnar. Við eigum að vera landið sem aðrar þjóðir horfa til. Eins og við höfum áður sagt eru ívilnanir fyrir mengandi stóriðju ekki lengur í boði. Þeim kafla Íslandssögunnar er lokið.

Við höfum nú lagt af stað með mörg mikilvæg verkefni, eins og samstarfsáætlun ríkisstjórnarinnar um gerð aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum. Málefni miðhálendis hefur verið sett á oddinn, svo dæmi sé tekið. Við gerum okkur grein fyrir því að ef eitthvað á að gerast í loftslagsmálum á Íslandi þá þurfum við að vera umhverfissinnar í öllum flokkum. Í loftslagsmálum þurfum við breiðfylkingu sem setja vill umhverfismálin á oddinn.

Hér á landi hafa virkjanir og bygging stóriðju verið réttlættar með því að það sé skárra að nýta sjálfbæra orku okkar Íslendinga til að reisa slíka verksmiðju hér á landi því að annars væri um að ræða kolaknúnar verksmiðjur í útlöndum eða verksmiðjur sem nýttu meiri mengandi orku. Af hverju tökum við Íslendingar þann svartapétur sjálfviljug? Við höfum líka heyrt rökin um að við séum svo fá að það muni ekkert um okkur í stóra samhenginu, þess vegna getum við verið umhverfissóðar. Auðvitað eigum við að ganga á undan með góðu fordæmi fyrir aðrar þjóðir. Við höfum alla burði til þess.

Góðir Íslendingar. Björt framtíð mun ganga á undan með góðu fordæmi og leggja sitt af mörkum til að treysta samstarf og samvinnu af því saman erum við sterkari en hvert og eitt okkar. Það á ekki bara við í hjálparsveitum og innan fjölskyldna, það á við í samfélaginu öllu. — Ég óska ykkur öllum gleðilegs sumars.