146. löggjafarþing — 74. fundur,  29. maí 2017.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:31]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Eins og síðast hafa samflokksmenn mínir sem töluðu hér á undan tekið af mér allan ræðutímann, [Hlátur í þingsal.] ég hallast að því að þetta séu samantekin ráð til þess að halda sæmilegri ró í þessum sal. Ég ætla ekki að fjalla núna um það hvað við erum góð í meiri hlutanum og hvað þið eruð slöpp í minni hlutanum. Ég ætla ekki að gera það. En ég ætla aðeins að tala um okkur sjálf, um stjórnmálin og stjórnmálamennina.

Ég hef upplifað það eins og þið kannski öll að við erum ekki að slá í gegn hjá almenningi. Ég hef mikið velt því fyrir mér af hverju það er, eins æðisleg og við erum. Og hvernig lögum við það? Ég veit það ekki, en ég er alveg viss um að við lögum það ekki með því að fara á samfélagsmiðlana og heyra hvað þeir háværustu segja þar. Ég held að við lögum það með því að hafa góðar hugmyndir, vel ígrundaðar, rökstuddar hugmyndir og ekki er verra að hafa einhverja framtíðarsýn. Við þurfum að hafa sjálfstraust til að koma þessum hugmyndum á framfæri, vera sannfærandi, leiða, og takast á um þetta. Við þurfum að hafa skoðanir jafnvel þó að einhver rísi upp á afturfæturna og jafnvel þó að sagt sé við okkur ef við höfum skoðanir: Þið eruð svo umdeild, þú ert umdeildur.

Ég held að fólk geri ekki almennt þá kröfu að vera sammála okkur um allt. Ég held að við getum notið trausts hjá fólki sem er ekki sammála okkur. Ég kann gott dæmi um þetta, því að ég sat nú hérna á síðasta þingi með Ögmundi Jónassyni. Við erum nokkurn veginn ekki sammála um neitt, en ég bar mikið traust til hans. Hann var samkvæmur sjálfum sér. Hann barðist fyrir sínu. Hann hafði hugsjónir, að vísu ekki sérstaklega góðan málstað. [Hlátur í þingsal.] En ég gat alltaf treyst honum. Það er gott að vinna með Ögmundi. Tími minn er löngu búinn, fyrirgefðu, forseti.