146. löggjafarþing — 74. fundur,  29. maí 2017.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:56]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegur forseti. Góðir Íslendingar. Ég stend hér í kvöld frammi fyrir íslenskri þjóð og flyt ræðu í fyrsta sinn á eldhúsdegi. Ég held að ég sé þá annar innflytjandinn af fyrstu kynslóð sem heldur ræðu á eldhúsdegi, á eftir hv. þm. Pawel Bartoszek sem einnig flutti ræðu hér í kvöld. Fyrir það er ég mjög þakklát. Eflaust finnst ekki öllum það merkilegt en mig langar að segja ykkur af hverju mér finnst það merkilegt.

Það hefur ekki verið auðvelt fyrir mig að vera innflytjandi á Alþingi og líklega hefur það ekki farið fram hjá neinum. Ég er ekki alltaf með allt á hreinu. Stundum mismæli ég mig. Ég er fulltrúi fyrir flokk sem situr í ríkisstjórn á tímum þegar það er einfaldlega ekki vinsæll kostur að vera við völd. Ég hef hugsað með sjálfri mér hvort það væri ekki bara einfaldara að vera í stjórnarandstöðu, vegna þess að ég er eins og ég er. Ég er öðruvísi. Ég er nokkuð viss um að mínar frjálslyndu hugmyndir, eða hugmyndir sem samræmast minni reynslu og þekkingu, myndu ekki fljúga jafn hátt ef við værum í stjórnarandstöðu. Það væri auðveldara að láta bara í sér heyra þegar það hentar í stað þess að þurfa að takast á við ýmis verkefni sem fylgja því að axla ábyrgð.

Í yfirlýsingu Bjartrar framtíðar höfum við skilgreint hugrekki svona: Það krefst hugrekkis að hlusta á hjarta sitt, fylgja sannfæringu sinni, boða sýn, treysta fólki, hlusta á rök og upplýsingar, standa í fæturna og axla ábyrgð. Ég mæti til vinnu hingað í þinghúsið á hverjum degi með þessi orð föst í brjósti mér af því að mér er annt um samfélagið sem hefur fært mér svo margt og vil því allt hið besta.

Við eigum enn eftir að byggja og bæta margt í okkar samfélagi sem lamaði mörg okkar í hruninu 2008. Þrátt fyrir það eigum við svo ótal margt gott hér á landi sem mér finnst við stundum gleyma. Hér stend ég, útlendingurinn, sem tákn um að hér er hægt að gera hluti sem ekki væri hægt að gera annars staðar. Og alls ekki í heimalandi mínu, Bandaríkjunum, „land of the free home of the brave“, frú forseti. Á Íslandi erum við örugg. Hér hafa allir aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu. Hér eigum við viðamikið og öflugt velferðarkerfi, tilbúið að grípa þá sem á þurfa að halda. Það er eftirsóknarvert að búa á Íslandi. Ég vil hvergi annars staðar búa.

Þegar ég flutti hingað fyrir 16 árum starfaði ég eins og flestir innflytjendur sem ræstitæknir því að það var ekkert annað í boði fyrir manneskju eins og mig sem talaði næstum enga íslensku. Ég einangraðist og mætti fordómum oft og víða. En mjög margt hefur breyst og nú stend ég hér, þökk sé íslenska menntakerfinu.

Ég kom hingað frá ríku landi, líklega einu ríkasta landi í heimi, og það kom mér verulega á óvart að heima var ekki, og er ekki enn, boðið upp á sömu tækifæri og hér. Ég velti því oft fyrir mér hvort við skiljum nægilega vel hvað það þýðir og hvað Íslendingar búa við mögnuð tækifæri.

Fyrir mér þýðir það að ef við beitum þeim kerfum sem við höfum, keppumst við að bæta og gera þau aðgengilegri og ef við mætum áskorunum sem fyrir okkur eru lagðar með krafti og jákvæðu hugarfari getum við allt.

Það kom mér verulega á óvart að uppgötva að háskólanám hérlendis myndi ekki kosta mig margar milljónir á hverri önn. Heima skrá innflytjendur sig ekki í háskólanám eftir einungis þriggja ára dvöl í landinu. Hér á Íslandi er það hægt og það er frábært.

Fólki finnst það stundum óþægilegt þegar ég ber saman það sem við höfum hér og stöðuna heima í Bandaríkjunum. Við sem flytjum hingað þurfum hins vegar að meta hvort það er þess virði að flytja frá fjölskyldu og nánustu vinum til að setjast hér að. Hvernig mun mér líða hér? Hvernig mun börnunum mínum reiða af í þessu samfélagi? Í mínu tilviki hefur þessi samanburður sannað fyrir mér að ég tók rétta ákvörðun því að mér líður ákaflega vel hér. Ísland er svo sannarlega land tækifæranna.

Ég varð strax og er enn ástfangin af íslenska menntakerfinu. Ég hef fulla trú á að þrátt fyrir erfiðleika við að koma okkur af stað eftir hrunið munum við ná okkur á strik. En til þess þarf kjark og þor. Menntakerfið er lykilkerfið í samfélaginu öllu. Menntun er langbesta leiðin til að valdefla landsmenn á öllum aldri, hvaðan sem við komum. Við megum samt ekki gleyma að horfa líka til þeirra sem þurfa sérstaka hvatningu. Ekki bara til þeirra sem hafa það gott og geta nýtt sér tækifærin. Við þurfum að viðurkenna styrkleikana sem eru til staðar í menntakerfinu og samfélaginu í heild og halda áfram að þróa þá. Við vitum nefnilega ekki í hvaða skóla næsti tvítyngdi innflytjandi situr, sem mun stíga fram á Alþingi og sanna að við búum í landi þar sem allir hafa tækifæri til að fara eins langt og þá lystir. — Góðar stundir.