146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

störf þingsins.

[10:01]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Góðan daginn. Mig langar í stuttri ræðu að tala um jákvæða stöðu í Reykjanesbæ, hvað lífið þar hefur tekið miklum stakkaskiptum og staða sveitarfélagsins lagast mikið, þrátt fyrir að það sé enn skuldugasta sveitarfélag landsins. Þar er gríðarleg uppbygging sem tengist auðvitað að stórum hluta Keflavíkurflugvelli þar sem skapast hundruð og jafnvel þúsundir starfa ár eftir ár með fjölgun flugfarþega. Það er mikið að gerast.

Það var áætlað að íbúafjöldi í Reykjanesbæ myndi vaxa um u.þ.b. 2,5% á ári en reyndin hefur verið sú síðustu árin að fjölgun er um það bil 7,5% og nálgast nú fjöldinn um 17 þús. manns. Það fjölgar um 1.100–1.300 manns á ári. Þetta hefur auðvitað ýmsa vaxtarverki í för með sér. Það þarf að byggja upp þjónustu og fyrir liggur að á næstu misserum, tveimur árum eða svo, þarf að fjölga mjög skólaplássum í sveitarfélaginu, sérstaklega á Ásbrú þar sem Háaleitisskóli er núna með u.þ.b. 14 kennslustofur og þar þarf að bæta við a.m.k. sjö á næstu tveimur árum auk þess sem bæta þarf við fjölda leikskólaplássa í sveitarfélaginu. En auðvitað vita menn ekki nákvæmlega hvað börnin verða mörg eða á hvaða aldri þannig að þeir renna dálítið blint í sjóinn.

Þetta skulduga sveitarfélag hefur ekki enn getað tryggt sér lán, lánafyrirgreiðslu, þar sem það er undir eftirlitsnefnd með fjárlögum sveitarfélaganna og þarf að leggja þar fram óskir um lán til framkvæmda. Það er því mjög mikilvægt að sveitarfélagið fái hlut af þeim 10 milljörðum sem eignir seldust fyrir á Ásbrú (Forseti hringir.) til þeirrar uppbyggingar sem nauðsynleg er fyrir sveitarfélag sem fær ekki að taka lán á næstunni.


Efnisorð er vísa í ræðuna