146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

störf þingsins.

[10:09]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Almennar stjórnmálaumræður, eldhúsdagsumræður, fóru fram hér á Alþingi í gær. Mér finnast þær alltaf áhugaverðar og þær draga sannarlega fram störf þingsins hér við þinglok, stöðuna í stjórnmálunum og verk hæstv. ríkisstjórnar ekki síst. Hér er sannarlega aukin hagsæld, bætt afkoma atvinnulífs, stóraukinn kaupmáttur og stöðugleiki. En á hvaða vegferð er hæstv. núverandi ríkisstjórn við þessar aðstæður? Í Undralandi sagði kötturinn eitthvað á þessa leið við Lísu þegar hún spurði til vegar: „Ef þú veist ekki hvert þú vilt fara þá er alveg sama hvaða leið þú velur.“ Hæstv. ríkisstjórn virðist stödd þar.

Hagsældin umtalaða kemur ekki beinlínis til af verkum núverandi hæstv. ríkisstjórnar heldur miklu fremur vegna afgerandi aðgerða síðustu hæstv. ríkisstjórnar undir forystu Framsóknarflokksins. Vandasöm úrlausnarefni voru leyst af síðustu hæstv. ríkisstjórn með þrautseigju og útsjónarsemi og gjörbreytti skuldastöðu heimila og stöðu þjóðarbúsins. Þeim möguleikum sem við höfum núna til að byggja hér upp innviði, heilbrigðis-, samgöngu-, velferðar- og menntamála. En hvaða leið ætlar þessi hæstv. ríkisstjórn að velja? Það er vandséð. Helst eru þar hugmyndir um að skera niður til framhaldsskólanna, draga úr framlögum til háskólanna, einkavæða í heilbrigðiskerfinu, hækka skatta á atvinnugrein í vexti og tala í kross með og gegn gjaldmiðlinum.

Hér var á síðasta kjörtímabili lagður grunnur að þeirri kjörstöðu sem við í raun erum í til að fara í miklu betri uppbyggingu grunninnviða og með auknum félagslegum áherslum á að efla almenna velferð. Það er ekki auðvelt, virðulegi forseti, en á stjórnarheimilinu virðist skorta alla samstöðu til þess.


Efnisorð er vísa í ræðuna