146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

störf þingsins.

[10:22]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Í fyrstu viku maí voru fjölmiðlar dagpart uppteknir af draumaferð fyrrverandi þingmanns og ráðherra Sjálfstæðisflokks til Svíþjóðar í hópi fimm annarra í liðskiptaaðgerð. Svo vildi til að Klíníkin skipulagði ferðina, en þar er forstjóri og aðaleigandi fyrrum samstarfsmaður og flokkssystir ferðalangsins og meðeigendur ættingjar forsætisráðherra. Sérkennilegt er hvernig þetta ber allt saman að, kannski óheppileg tilviljun í samhengi hlutanna. Þessi klíník hefur verið að reyna að brjóta sér leið að opinberum sjóðum til að veita heilbrigðisþjónustu. Ferðinni lýsti viðkomandi af andagift. Það sem toppaði allt var að þegar hún renndi í hlað spítalans góða í Svíaríki var henni að eigin sögn tjáð að þetta væri einkarekið sjúkrahús sem hún náttúrlega hafði ekki hugmynd um áður en hún fór að heiman. Skilja mátti af upplifun hennar að þetta væru mikil tíðindi og hún bæri þarna augum dýrð skaparans svo ekki færi á milli mála.

Ferðin var farin á grundvelli EES-tilskipunar um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri. Sú heimild er ein afurð þessa ágæta samstarfs sem við hófum fyrir 25 árum, en draga þurfti Sjálfstæðisflokkinn til þess gjörnings með miklum trega, hann var klofinn í afstöðunni. Það er ánægjulegt í sjálfu sér að flokksmaðurinn hefur fengið að upplifa kosti þessa sambands og aðgerðin gekk vel og auðvitað árnum við henni heilla í framtíðinni.

Það sem skilja mátti af viðtölum við hana var hins vegar umhugsunarefni. Látið var í veðri vaka að ríkið greiddi allan kostnað við ferðina og jafnvel ýjað að fylgdarmönnum líka. Þetta er alls ekki rétt. Um þessar ferðir gilda ákvæði reglugerðar nr. 484/2016, og samkvæmt henni þá endurgreiða Sjúkratryggingar Íslands sjúkratryggðum hér á landi kostnað eins og um heilbrigðisþjónustu hér á landi væri að ræða. Liðskiptaaðgerðir eru miðstýrðar á Íslandi. (Forseti hringir.) Mér fannst því ástæða til að leggja strax fram skriflega fyrirspurn til ráðherra um hvernig framkvæmd reglugerðarinnar væri háttað og hvort einhver misskilningur væri hér á ferðinni. (Forseti hringir.) En svar hefur því miður dregist.