146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

störf þingsins.

[10:27]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég verð að taka undir með hv. síðasta ræðumanni og segja: Það er algerlega óásættanlegt að við skulum vera í þeirri stöðu sem við erum í í dag gagnvart fylgdarlausum börnum. Á sama tíma erum við að auka framlög til NATO. Við erum að borga á annan milljarð til NATO. Til hvers? Við höfum ekkert með það að gera að eyða svo miklum peningum í NATO. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Við eigum að verja þeim í mannúð. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Það hlýtur að vera freki kallinn sem hér var minnst á í gær sem er við völd. Við hvern skyldi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hafa átt? Er það forsætisráðherra sem er svona frekur? (SSv: Maður spyr sig.) Maður spyr sig. Hver skyldi það vera? Hver er það sem vill ekki víkja frá því sem hann hefur ákveðið að sé rétt?

Það voru nefnilega stór orð sem hæstv. fjármálaráðherra lét hér falla í gær. Eðli málsins samkvæmt, þegar menn horfa inn á við, eins og hæstv. ráðherra virtist nú gera og tala eingöngu fyrir hönd Viðreisnar, spyr maður sig hver það sé sem hér er um að ræða. Því að það er alveg ljóst og sjá allir sem vilja sjá að það er ágreiningur uppi í ríkisstjórninni. Þau eru ekki samstiga, fara ekki sömu leið hvert með öðru. Þau haldast alla vega ekki í hendur, það er alveg augljóst. Auðvitað þarf hæstv. ráðherra að skýra við hvern hann á. Því að ef hann á ekki við hæstv. forsætisráðherra og þá fylginauta sem eru með honum í ríkisstjórn þurfum við að vita hver það er sem hamlar því að hér sé hægt að koma fram góðum breytingum, hvort sem við erum að tala um heilbrigðiskerfið eða skólamálin eða hvað það er sem við fáumst við hverju sinni.

Hver er það sem vill ekki breyta, hæstv. ráðherra? Hæstv. ráðherra hefur tækifæri hér í dag til að ljúka umræðunni um ríkisfjármálastefnuna. Ég vona svo sannarlega að hann skýri það fyrir okkur því að við þurfum að fá að vita það í stjórnarandstöðunni. Við getum lagt honum lið við ýmsar góðar breytingar (Forseti hringir.) ef hann er tilbúinn til að horfa fram á við en ekki í aftursætið eins og hér virðist vera gert.