146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Bjarni Halldór Janusson (V):

Frú forseti. Mig langar að tala um dræma kosningaþátttöku ungs fólks. Ég tel að hún sé ekki vegna áhugaleysis á stjórnmálum heldur fyrst og fremst vegna bágra kjara hópsins miðað við aðra. Fyrst ber að nefna að ungt fólk getur ekki keypt eins mikið af vörum og þjónustu fyrir tekjur sínar og æskilegt þætti. Þannig eru neytendamál jafn mikið þeirra mál og annarra, ef ekki meira vegna lægri tekna. Allt frá samkeppni lágvöruverðsverslana til breytinga á löggjöf leigubílaaksturs, allt þetta eru mál unga fólksins.

Það sem við getum gert þar er takmarkað en þó getum við tryggt að umgjörðin sé til þess fallin að valfrelsi sé eðlilegt og verð mótist af samkeppni til hagsbóta fyrir þá neytendur. Við gerum raunar mest gagn með því að bæta þau úrræði sem standa ungu fólki til boða, t.d. með því að efla geðheilbrigðisþjónustu fyrir ungt fólk, sem að öllu jöfnu á erfiðara með að sækja styrk úr sjúkrasjóði stéttarfélaga, og sporna gegn því að fjöldi ungs fólks neiti sér um þá lífsnauðsynlegu þjónustu.

Einnig mætti sníða Lánasjóð íslenska námsmanna betur að þörfum þeirra sem nýta sér hann. Þó nokkuð er um skerðingar þegar námslán eru veitt og sjóðurinn lánar í mesta lagi fyrir 92% af þeirri upphæð sem námsmaður þarf raunverulega til að framfleyta sér, jafnvel þó að námsframvinda sé nógu góð og öll skilyrði uppfyllt. Fæstir námsmenn telja þá upphæð duga sér.

Það hentar líka illa að sjóðurinn skuli ekki fyrirframgreiða lánin. Námsmenn þurfa að leita á náðir banka og taka yfirdráttarlán með tilheyrandi útgjöldum og fjárhagskvíða. Ef lánasjóðurinn greiddi sjálfur út fyrir fram yrði útlánakerfið gegnsærra og sparnaður yrði þegar vaxtastyrkurinn sem nú er greiddur til að koma til móts við vexti yfirdráttarlána færi í lánið sjálft.

Einnig má nefna fæðingarstyrk námsmanna sem er allt að 60.000 kr. lægri en fæðingarstyrkur þeirra sem eru á lágmarkslaunum á vinnumarkaði.

Ef við segjum að nám sé vinna sendum við ekki rétt skilaboð.

Þetta eru einungis örfá dæmi af mörgum. Það er ákveðið mynstur hér. Þegar samfélagið virkar loksins sem skyldi fyrir ungt fólk fer það að taka þátt í þeirri samfélagsmótun sem fylgir kosningum. Því legg ég til, ef við ætlum að bregðast við þessu, að við vinnum okkar vinnu og tryggjum að samfélagið virki sem skyldi fyrir þennan hóp. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)