146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

svör við fyrirspurnum.

[10:36]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Nú er næstsíðasti þingfundardagur okkar fyrir þinglok að þessu sinni. Þess vegna þykir mér tilhlýðilegt að minnast á og kannski forvitnast um afdrif fyrirspurna til ráðherra, sem virðast bara hverfa inn í eitthvert svarthol þegar þær fara frá okkur til þeirra. Fyrirspurn frá mér hefur legið hjá hæstv. menntamálaráðherra síðan 23. mars. Þetta eru rúmir tveir mánuðir sem hæstv. ráðherra hefur tekið sér til að svara þessari fyrirspurn. Ég hef engin viðbrögð fengið við því, enga tilkynningu um að það þurfi að vinna svarið betur eða fresta, að það sé yfir höfuð eitthvað verið að vinna í málinu. Hæstv. ráðherra hefur fimmtán daga til að svara fyrirspurninni og það eru reglur sem hann brýtur án þess að þurfa nokkuð að koma inn á það hér.

Fyrirspurn mín lýtur að starfsmönnum og starfsmannahaldi hjá Ríkisútvarpinu. Þetta er fyrirspurn sem mannauðsstjóri eða starfsmannastjóri ætti að geta svarað á einum, tveimur dögum. Það er ekkert í minni fyrirspurn sem kallar á mikla yfirlegu, á rannsóknir, að það þurfi eitthvað að fara að grafa djúpt ofan í málið. Ég er að spyrja um fyrirkomulag starfsmannahalds. Hvernig stendur á því að hæstv. ráðherra er búinn að trassa það núna í rúma tvo mánuði að svara þessari fyrirspurn? Það getur einfaldlega ekkert (Forseti hringir.) annað legið að baki nema pólitík. Honum finnst fyrirspurnin óþægileg og leyfir sér því að hunsa hana. Ég kalla eftir því, hæstv. forseti, að það verði gengið eftir því að fyrirspurninni verði svarað áður en þingi lýkur á morgun.