146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[10:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S):

Frú forseti. Við erum nú á lokaspretti umræðu um ríkisfjármálaáætlun sem rædd hefur verið í þinginu undanfarna daga. Þetta hefur að mörgu leyti verið tímamótaumræða að því leyti að hún bar þess glögglega merki að þingið var allt saman virkur þátttakandi í umræðu og meðferð málsins. Ég vil þakka sérstaklega á þessari stundu, þegar líður að lokum þessarar umræðu, þá góðu vinnu sem allt þingið lagði í þetta mikilvæga þingmál.

Umræðan hefur að vissu leyti snúist um tæknileg mál og tæknilega framsetningu þingmálsins. Ég vil einungis segja, eins og reyndar hefur komið fram í umræðunni sem ég hef reynt að taka þátt í af fremsta megni, að auðvitað erum við í ákveðnu lærdóms- og þróunarferli í þessu máli. Ég held að umræðan núna beri þess líka merki að við ættum að reyna að einsetja okkur að taka eins stórt stökk í því að þróa þetta ferli hratt og vel þannig að við getum náð þeim markmiðum sem við ætluðum að setja okkur, miklu fyrr en blasir endilega við okkur nú.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál hér. Ég ætla að fá að skipta ræðutíma okkar Sjálfstæðismanna milli mín og hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar, en einungis segja hér að lokum efnislega um ríkisfjármálaáætlun að það er mikilvægt að við höfum í huga að hún er stórt tannhjól í gangverki þess að hér ríki ábyrg efnahagsstjórn. Það má vissulega ræða um hverju þarf að breyta og að það þurfi að bæta ýmsu í og laga. Þetta er ábyrg nálgun að því leyti að við reynum að gæta hófs í að þenja út ríkisútgjöldin. Við tökum mið af þeim þrótti sem er í efnahagslífinu og honum er vissulega skilað í raunaukningu útgjalda sem rakin eru sérstaklega í nefndaráliti meiri hlutans þar sem reynt hefur verið að flokka betur þá útgjaldaþróun sem verður á næstu árum.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum þakka fyrir þá góðu umræðu sem um þetta mál hefur verið.