146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[10:51]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það sem hefur vakið athygli við þessa fjármálaáætlun er í fyrsta lagi umsögn óháðs fjármálaráðs um áætlunina. Ég held að ég sé ekki að fara offari þegar ég segi að sú umsögn sé í raun falleinkunn um þessa áætlun. Þar er bent á að áætlunin sé ekki í samræmi við þau grunngildi sem getið er um í lögum um opinber fjármál hvað varðar stöðugleika, hvað varðar gagnsæi, hvað varðar jafnvægi og sett eru fram ítarleg rök um það af hverju áætlunin uppfyllir ekki þau grunngildi. Sérstaklega er þetta áberandi hvað varðar gagnsæið sem er nánast ekkert í þessari áætlun því að það vantar gríðarmiklar grunnforsendur og baklægar tölur til þess að áætlunin geti talist gagnsæ.

Fjármálaráð segir líka í umsögn sinni að áætlunin byggist á einsleitum spálíkönum og þar af leiðandi sé gríðarleg óvissa um efnahagslegar forsendur áætlunarinnar. Til að mynda er gert ráð fyrir því að þessu lengsta samfellda hagvaxtarskeiði lýðveldissögunnar ljúki með mjúkri lendingu þó að sagan kenni okkur annað. Við hljótum að hlusta eftir þessum ábendingum og þessari gagnrýni fjármálaráðs sem segir að það vanti miklu meiri vinnu til þess að þessi lög virki eins og þeim var ætlað að gera, að þessi áætlun standist ekki lögin eins og þau eru uppfyllt.

Um tekjuhlið þessarar áætlunar vil ég segja að hún byggir á því sem áður hefur verið gert. Á síðasta kjörtímabili voru tekjustofnar ríkisins veiktir verulega. Ég þarf ekki að fara yfir öll þau dæmi sem ég hef oft farið yfir hér í ræðustól Alþingis. En áfram er haldið með því að boða lækkun á efra þrepi virðisaukaskattskerfisins. Ég hef ekki heyrt hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans efast um þá skattalækkun, enda er hún hluti af þeirri möntru sem við heyrum hjá öllum hv. þingmönnum stjórnarliðsins um gildi skattalækkana þó að það sé þvert á það sem allir hagfræðingar tala um. Nú þegar þenslan í hagkerfinu er með þeim hætti sem við sjáum, styrking krónunnar með þeim hætti sem við sjáum, þá er boðuð skattalækkun. Tilfærsla ferðaþjónustunnar í efra þrep virðisaukaskattskerfisins er umdeild, hún mun ekki koma til framkvæmda ef ég kann að hlusta og kann að lesa í orð hv. þingmanna stjórnarmeirihlutans. Hún mun ekki koma til framkvæmda og ég er svo sem ekki hissa, því að ekkert samráð virðist hafa verið haft við greinina um þessa tillögu, engin greining liggur fyrir á því hvaða áhrif þessi breyting mun hafa á ferðaþjónustuna. Það er ekki búið að vinna heimavinnuna, frú forseti.

Stóra málið er nú líklega það að áformuð þróun samneyslunnar, sem lögð er til í þessari fjármálaáætlun meiri hlutans, sést á bls. 16 í greinargerð tillögunnar; þar sést hvernig hlutfall samneyslu af vergri landsframleiðslu fer lækkandi ár frá ári út áætlunartímann og endar undir meðaltali síðastliðinna 25 ára. Slík þróun er algjörlega fráleit. Við vitum hver aldurssamsetning þjóðarinnar er og við vitum að heilbrigðiskerfið mun kosta okkur meira þegar fram í sækir sem og umönnunarkerfið og að auki erum við með gríðarlega uppsafnaða uppbyggingarþörf, hvort sem litið er til heilbrigðismála, menntamála eða annarra innviða, svo að ég nefni nú ekki þá sem búa við lægst kjörin í samfélagi okkar, öryrkja og aldraða, sem fá hörmulega niðurstöðu í þessari fjármálaáætlun þar sem framfærslutrygging öryrkja, sem á að nafninu til að tryggja að kjör þeirra haldist í hendur við lægstu umsamin laun í samfélaginu, heldur áfram að skerðast krónu fyrir krónu. Ég hvet hv. þingmenn meiri hlutans til að lesa umsögn Öryrkjabandalagsins um þessa áætlun.

Í stuttu máli eru forsendurnar óljósar. Það er skortur á greiningum og gögnum. Áætlunin fylgir ekki grunngildum laga um opinber fjármál og er fjarri öllum þeim væntingum sem gefnar voru almenningi í þessu landi fyrir kosningar. Hún stendur ekki (Forseti hringir.) undir þeim væntingum sem forsvarsmenn stjórnarflokkanna gáfu fyrir kosningar. Það eitt og sér er nægileg ástæða til að hafna þessari áætlun.