146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[10:56]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Í gær sagði hæstv. samgönguráðherra Jón Gunnarsson að staðan í efnahagsmálum væri með eindæmum góð og hefði sjaldan verið betri. Staða ríkissjóðs væri sterk og væri undirstaðan fyrir komandi uppbyggingu. Kunnugleg stef heyrðust líka, áherslan á einkaframtakið, aðhald í ríkisfjármálum en svo læddist inn stóriðjublæti ráðherrans þrátt fyrir að umhverfisráðherra í sömu ríkisstjórn segi að ekki verði ráðist í slíkt á hennar vakt.

Undir einkvæðingarblætið tók hv. þm. Hildur Sverrisdóttir með umvandanir um leið í garð okkar sem hún telur að skiljum ekki hugtök þegar kemur að einhverju sem byrjar á einka.

Viðreisnarþingmenn sem og ráðherra hjá Bjartri framtíð töluðu hvert um sinn málaflokk og sitt sem undirstrikar að hér fer ekki samstiga ríkisstjórn.

Það er vissulega krefjandi að viðhalda velferðarkerfinu okkar og tryggja framtíð þess. Til þess þarf bæði gott skipulag í samtímanum og skýra framtíðarsýn en ekki síst trausta fjármögnun. Þar eru skatttekjur mikilvægastar og að mati okkar Vinstri grænna ætti ekki að leita annað eftir fé til að greiða fyrir velferðarþjónustu. Við höfum ekki áhuga á að krefja sjúkt fólk um greiðslu fyrir heilbrigðisþjónustu eða ungmenni um skólagjöld en við ætlumst til þess að greiddir séu álagðir skattar af skattstofnum. Við gerum kröfu um að arður af náttúruauðlindum falli í hlut allra landsmanna en ekki fámennra hagsmunahópa. Við viljum að greiddur sé skattur af fjármagnstekjum og við höfum alls ekkert umburðarlyndi gagnvart þeim sem víkja sér undan skyldu sinni við samfélag sitt í þessum efnum.

Þessi ríkisfjármálaáætlun kemur ekki til móts við það sem lofað var fyrir kosningar. Það er uppgangur í efnahagslífinu og af hverju eiga öryrkjar, eldri borgarar, börn og ungt fólk sem er að koma sér upp húsnæði ekki að njóta? Hvenær skyldi vera rétti tíminn til þess?

Eins og hér kom fram áðan er umsögn fjármálaráðs um þessa ríkisfjármálaáætlun falleinkunn. Það hefur ekki verið eins lág samneysla síðastliðin 25 ár og gert er ráð fyrir í þessari fjármálaáætlun. 25 ár eru ekkert smáræði. Við horfum fram til þess að þjóðin eldist töluvert og við tökumst ekki heldur á við það í þessari ríkisfjármálaáætlun með uppbyggingu í öldrunarþjónustu. Við erum að kaupa þyrlur en ætlum ekki að tryggja á þær mannskap. Við ætlum að fækka í lögreglunni af því að við leggjum ekki nóg til. Við ætlum að loka eða fækka hjá sýslumönnum og líklega verður það ekki síst á landsbyggðinni. Það er gert ráð fyrir að fækka nemendum í skólum. Hér er talað um einkavæðingu í öðru hverju orði hjá þeim þingmönnum sem ræða um þessa ríkisfjármálaáætlun. Það eru svikin loforð og það er engin sókn í uppbyggingu í þessari ríkisfjármálaáætlun. Það er blekkingaleikur að halda slíku fram.

Það ríkir stjórnleysi á stjórnarheimilinu. Ég held að það sé alveg ljóst, það kom hér fram í gær og það hefur komið fram opinberlega mjög ítrekað að þessi ríkisstjórn gengur ekki í takt.

Ekki hefur tekist nægilega vel til í þeirri ríkisfjármálaáætlun sem hér er lögð fram. Það er ámælisvert að fresta eigi og ýta fram á haustið ákvörðunum sem eru grundvallaratriði í þessari ríkisfjármálaáætlun. Það er ekki hægt að bjóða upp á þetta. Hæstv. ráðherra hefur sagt að ekki sé hægt að takast á við athugasemdirnar af því að þær komi fram eftir að ríkisfjármálaáætlun hefur verið lögð fram. Til hvers erum við þá að fá athugasemdir ef við ætlum ekki að taka tillit til þeirra?

Við getum ekki bara sagt: Við ætlum að reyna að gera betur næst. Við gerum það klárlega, það er ekki hægt annað. Verra getur það eiginlega ekki orðið miðað við umsögn fjármálaráðs.

Það er ámælisvert að ætla að halda því fram að við getum beðið. Stjórnarþingmenn tala hér um að þetta sé ekki algilt vegna þess að þetta sé bara þingsályktunartillaga en ekki lög en við erum samt búin að festa þetta hér með þingsályktunartillögu sem samþykkt var af hálfu ríkisstjórnarflokkanna fyrr og heitir fjármálastefna. Þar eru ríkisfjármálin römmuð inn og við lokuð inni, eins og fjármálaráð bendir ítrekað á.

Þegar við erum svo komin með þessa ramma í hendurnar örlítið meira sundurgreinda, allt of lítið þó eins og allir hafa sagt, er bara sagt: Þetta kemur bara í ljós í haust og þá ætlum við að jústera á milli málaflokka eða málasviða.

Virðulegi forseti. Hvar eru peningar? Hvaða málaflokkur er svo feitur að hann geti séð af fjármunum í eitthvað annað? Hver á að borga tillögur meiri hlutans í fjárlaganefnd sem byggja á því að peningarnir fái að haldast í framhaldsskólunum, að háskólarnir njóti sambærilegra framlaga og á yfirstandandi ári? Það er ekkert skýrt, en það hlýtur að vera innan þess málasviðs þannig að ég velti fyrir mér hvort einhver málaflokkur innan málefnasviðs skólanna hafi borð fyrir báru. Það held ég ekki.

Ég verð að segja, af því að oft er talað um vinstri og hægri, að munurinn á hægri og vinstri stefnu er alltaf augljós. Stundum er öðru haldið fram. Það er aldrei erfitt að greina á milli félagshyggju og jafnaðarstefnu annars vegar og sérhyggju og kapítalisma hins vegar. Það er alltaf augljóst þegar réttur hinna sterkari og ríkari er meira virtur en réttur þeirra sem standa höllum fæti og hafa af litlu að taka. Þegar stjórnvöld hleypa afli auðmagnsins að stjórnartaumunum skapast það félagslega óréttlæti sem við sjáum hér. Það er það sem er að gerast og það er það sem þessi ríkisfjármálaáætlun endurspeglar.