146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:02]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum í dag síðasta sinni stærsta mál ríkisstjórnarinnar á þessum þingvetri, fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Það er lýsandi um þá umræðu að gagnrýnin í þessum þingsal, bæði frá minni hlutanum en ekki síður frá meiri hluta þingmanna, þ.e. í álitum sem þeir hafa gefið, er mjög mikil á áætlunina enda stendur hún ekki undir þeim væntingum sem stjórnarflokkarnir, og reyndar aðrir flokkar, lofuðu fyrir kosningar og hún er ekki að bregðast við þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í samfélaginu í dag.

Það sem allir eru sammála um, bæði þingmenn í þessum sal og utanaðkomandi aðilar, eins og fjármálaráð, er að verulega skortir á að framsetningin að þessu sinni uppfylli lagaleg skilyrði og meiri greiningar vanti á milli fjárfestinga og reksturs og annarra hagrænna þátta. Það er ágætt að við erum sammála um það. Ég held að það muni vonandi breytast í framtíðinni.

Það sem hins vegar er merkilegra að sjá er að í meirihlutaáliti fjárlaganefndar í 12 liðum gagnrýna þeir mjög margt í þessari fjármálaáætlun og benda á að breyta þurfi. En stjórnarþingmennirnir heykjast á því að koma með breytingartillögur. Þetta er þó sú umræða, sá staður, þar sem við tökum umræðuna um stefnumótunina, það er löggjafinn sem leggur línurnar og framkvæmdarvaldið fylgir. En það virðist vera sem svo að samstöðuleysið innan ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna sé þannig að stjórnarþingmenn þori ekki að leggja fram breytingartillögur vegna þess að þeir eru ekki sammála um þær. En þeir verða sammála um að benda á eitt og annað.

Ég ræddi það í umræðu um fjármálastefnuna að stefna þessarar ríkisstjórnar væri að sníða sér þann stakk eftir vexti að þeir gætu ekki framfylgt einu eða neinu. Við umræðuna um fjármálastefnuna mátti ekki ræða neitt, stjórnarþingmennirnir komu ekki hingað upp. Hér í fjármálaáætluninni gagnrýna þeir þó eitt og annað, en þeir fóru heldur ekki að leggja fram breytingartillögur.

Í fjárlögunum í haust verðum við í miklum vanda. Þar verður allt upp í loft. Það mun vanta peninga í heilbrigðiskerfið, stórkostlega. Það er vanfjármagnað. Menn halda því fram að verið sé að fjármagna það í botn, bæði í uppbyggingu og rekstur. Það er alrangt. Sú uppbygging er ekki einu sinni fjármögnuð, sem er þó stærsti hlutinn, sem fer í steinsteypu við Hringbraut. Það sama gildir um háskólastigið. Sú aukning sem þar er fer að stærstum hluta í steinsteypu, ekki í meiri menntun.

Í framhaldsskólanum ákveður núverandi ríkisstjórn að bregða af leið fyrri ríkisstjórnar og fyrri fjármálaáætlunar með því að taka fjármagn frá framhaldsskólanum, sem skapast við styttingu náms úr fjórum árum í þrjú, og færa það inn í ríkissjóð eða í eitthvað annað, en ekki að skila því aftur til menntunarinnar.

Í nýsköpun, rannsóknum og tækniþróun er engin áætlun. Metnaðarleysi núverandi ríkisstjórnar er algert þegar kemur að því að takast á við framtíðina, sem er að skapa hér aukna menntun, aukin tækifæri í nýsköpun, rannsóknum og menntun ungs fólks.

Að ekki sé minnst á samgönguáætlun eða samgöngur. Þar skilar ríkisstjórnin einfaldlega auðu. Þar er rætt um að setja veggjöld. Ef menn vilja fá meiri þjónustu, fleiri og betri vegi, þá skulu menn bara borga meira. Það var mantran sem við heyrðum hér í gær. Sjálfstæðisflokkurinn kom þó fram og sagði: Það þarf bara að einkavæða meira. Björt framtíð mætti hingað upp, formaður hennar, og tók undir að það væri bara góð stefna sem þessi ríkisstjórn framfylgdi. Það kom mér á óvart. Viðreisn skilaði hins vegar auðu í eldhúsdagsumræðunum í gær. Það var ekkert rætt af hálfu stjórnarþingmanna um framtíðina.

Það er rétt að staða efnahagsmála á Íslandi er góð í dag, en það eru risastórar áskoranir. Þær snúast að mörgu leyti að því að finna þarf leið til þess að lenda hagkerfinu mjúklega. Stærsta áskorunin er okurvextir í landinu og gengi. En það er til önnur leið. Það er leið hins blandaða hagkerfis. Það er leiðin þar sem við byggjum upp þar sem tækifæri eru til þess. Það eru tækifæri til þess úti á landsbyggðinni þar sem víða er þörf á mikilli uppbyggingu án þess að það hefði mikil þensluáhrif á heildina í landinu. Það væri uppbyggingarstefna. Nú er akkúrat tækifæri til þess.

Auðvitað þarf að fjármagna nauðsynlega innviði heilbrigðis- og menntunarmála alls staðar á landinu. Það er bara frumskilyrði. Við höfum næga fjármuni til þess. Það eigum við að gera. Þess vegna munum við hafna þessari fjármálaáætlun og leggja til aðrar leiðir við fjárlögin í haust.