146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:07]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Við Framsóknarmenn teljum mikilvægt að leggja áherslu á niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs og draga þar með úr vaxtakostnaði, en við hefðum viljað fara aðra leið en hægri stjórnin, betri leið og hún er fær. Við gagnrýnum t.d. þá miklu aðhaldskröfu sem sett er fram í ríkisfjármálaáætlun. Við hefðum viljað færa aðhaldskröfuna niður í 1% afgang af fjárlögum, en hún er nú 1,5%. Minna aðhald ætti að skila ríkissjóði um 10–12 milljörðum kr. aukalega á ári. Að auki viljum við auka tekjur ríkissjóðs t.d. með komugjaldi og lýðheilsuskatti.

Samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar er ófjármögnuð. Ríkisstjórnin ætlar reyndar að leggja nokkra milljarða í samgöngumál, en þeir eru aðeins dropi í hafið. Á meðan grotna samgöngumannvirki niður og við náum ekki að fara í nýframkvæmdir, sem eru orðnar verulega aðkallandi vegna vaxandi umferðar. Ríkisstjórnin ætlar að skila auðu í samgöngumálum. Ráðherrar og þingmenn hægri flokkanna hafa þó reynt að draga úr vonbrigðum landsmanna með því að tala um að það sé von. Vonin felst í vegatollum. Skilaboðin eru: Ef þið viljið bæta samgönguöryggi, losna við einbreiðar brýr og tvöfalda vegi hljótið þið að vilja greiða vegatolla. Annars gerist ekki neitt.

Þessi skilaboð eru þvættingur. Það er til betri leið, leið okkar Framsóknarmanna. Ástríðuleysið innan ríkisstjórnarinnar blasir við hverjum þeim sem vill sjá. Það eina sem virðist sameina flesta þingmenn ríkisstjórnarflokkanna er trú þeirra á einkavæðingu, einkarekstur á sem flestum sviðum. Ríkisstjórnin rekur sveltistefnu sem er til þess fallin að fá íbúa landsins til að sætta sig við að það er betra að hafa einkarekna þjónustu en alls enga — eða slaka þjónustu.

Til að fela kosningasvikin er sú leið farin að leggja fram fjármálaáætlun án þess að aðgreina fjármagn sem er annars vegar fyrir fjárfestingu og hins vegar rekstur. Ef við horfum t.d. á þau málefnasvið sem lúta að heilbrigðis- og menntamálum hefur komið í ljós að sú fjármagnsaukning sem sett er í þá málaflokka fer fyrst og fremst í steypu.

Ég gagnrýni þá forgangsröðun og bendi á þá augljósu staðreynd að ef innviðir fá að grotna niður áfram mun það skaða samkeppnisstöðu landsins til lengri tíma. Ætla menn í alvörunni að halda að sér höndum þegar uppgangur er í efnahagslífinu, eins og þeir gera þegar niðursveifla er? Hvenær er rétti tíminn til að fara í framkvæmdir?

Við þurfum að fara varlega á tímum sem hagkerfið er heitt, eins og nú. En þenslan er ekki á öllum landsvæðum. Greiningu skortir, t.d. varðandi magfeldisáhrif framkvæmda eftir landshlutum. Ég vil einnig undirstrika enn og aftur að forgangsröðun opinberra framkvæmda á ekki einungis að byggja á arðsemiskröfum heldur þjóðhagslegum forsendum þar sem ýmsir samfélagslegir þættir eru einnig teknir inn í jöfnuna.

Þá kem ég að byggðamálunum sem eru okkur Framsóknarmönnum afar hugleikin, nú sem endranær. Fjármálaáætlun lýsir því miður algjöru metnaðarleysi á því sviði þar sem framlög til sóknaráætlana til lengri tíma er ekki að finna í fjármálaáætlun. Slík óvissa um fjármögnun verkefna til lengri tíma er algjörlega óboðleg.

Við Framsóknarmenn erum algjörlega mótfallin þeim virðisaukaskattsbreytingum sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa talað fyrir. Við teljum þær hugmyndir illa útfærðar og illa undirbúnar. Í ljós hefur komið að áhrif fyrirhugaðra breytinga eru vangreind og þær ekki unnar í samráði við hagsmunaaðila.

Svipuð gagnrýni kom frá sveitarfélögunum gagnvart þeim þáttum fjármálaáætlunar sem snúa að þeim. Þar var heldur ekkert samráð haft og það sem verra er, áætlanirnar eru fullkomlega óraunhæfar m.a. að sögn fjármálaráðs, Ríkisendurskoðunar, sem tók reyndar dýpra í árinni og sagði að þessar áætlanir og tölur væru hreinlega galnar, og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hvers vegna er verið að setja fram tölur sem vitað er að munu ekki standast? Ég vitna hér í 11. gr. laga um opinber fjármála sem við eigum að fylgja. Þar segir að það beri að hafa samráð við sveitarfélögin við gerð fjármálaáætlunar. Það ber að gera það og það er ekki verið að því nú. Við erum ekki að framfylgja lögum um opinber fjármál, a.m.k. ekki að þessu leyti.

Meiri hluti fjárlaganefndar áttaði sig fljótlega á hve meingölluð framlögð fjármálaáætlun er, bæði hvað varðar innihald og framsetningu. Því lagði meiri hlutinn til að ákveðnir þættir yrðu skoðaðir betur og úrbætur gerðar. Mikið vildi ég að meiri hluti fjárlaganefndar hefði sýnt pólitískt hugrekki, verið samkvæmur sjálfum sér og lagt fram breytingartillögur. Ætla þeir þingmenn stjórnarinnar sem hafa áttað sig á hversu meingölluð áætlunin er, í alvörunni að greiða atkvæði með málinu?

Það ætlum við Framsóknarmenn a.m.k. ekki að gera, við verðum á rauða takkanum og leggjum til að málinu verði hafnað.